Vorplönturnar vakna

Graslaukurinn (Allium schoenoprasum) minn er svo fallegur á litinn að hann æpir á mig um að ég noti hann í hina ýmsu rétti.  Sólin skein bjart um helgina og jurtirnar sem eru að vakna fengu auka kraft og ég er ekki frá því að mannfólkið hafi einnig fengið einhvern skammt af þessum krafti.

Við fengum Badda í vinnu í apríl 2012 með litlu gröfuna sína og hann er búin að stækka grænmetisgarðana tvo sem munu t.d. gefa okkur mikið magn af salati, brokkolí, blaðbeðju (swiss chard), blómkáli, gulrótum, rauðrófum, hvítlauk og kartöflum.  Ég er mjög hrifin af villtum jurtum en einnig jurtum og grænmeti sem hægt er að rækta. Eiginlega ætti ég að um orða þetta og segja að ég sé hrifin af öllu sem hægt er að borða eða drekka. Ekki er verra ef innihaldsefnin koma af einhverju eða öllu leiti frá jörðinni og rétturinn, teið eða drykkurinn sé búin til af mér. Hérna koma nokkrar myndir af jurtum og ein mynd af stækkun minni grænmetisgarðins.

Aspas, 2 ára (Asparagus officinalis)

Aspas er spennandi jurt. Hann er ásamt rabbabara eina fjölæra grænmetið, sem þýðir að hann kemur upp ár eftir ár.  Ég sáði honum vorið 2011 og upp komu grænar spírur sem uxu og uxu, eins og dverga aspas. Ég plantaði honum í gróðurhúsið. Svo núna í vor komu upp aðeins stærri spírur, ég ákvað að nú skildi aspasinn fá að fara út því hitinn í gróðurhúsinu var ekki að gera honum gott. Ég get svarið fyrir það að ég held að hann hafi gefið frá sér andvarp þegar ég gróðursetti hann ofan í svala og raka moldina.

Á næsta ári þegar hann verður þriggja ára og ef allt gengur vel ætti að vera hægt að taka nokkur spjót og nota í góða rétti. Þá sker maður niður við rótina. Því miður er ekki hægt að kaupa aspasrætur hér á landi en erlendis er hægt að kaupa rætur sem eru eldri en þriggja ára og þá þarftu ekki að standa í þessu með fræin og bíða í þrjú ár eftir uppskeru.

Oregano (Origanum vulgare)

Þessu átti ég ekki von á að oregano jurtirnar mínar myndu lifa af veturinn, en hér eru þær. Þær eru ilmandi ferskar og gefa mér næga uppskeru fyrir allt árið þannig að ég þarf aldrei að kaupa oregano.  Ég þurrka laufin og nota í alla ítölsku réttina mína.

Hvönn (Angelica archangelica)

Þarna er hún, ein kraftmesta lækningajurtin sem vex á Íslandi, en einnig frábær kryddjurt fyrir fiskrétti og góð tejurt. Hvannargarðar eru við gömul býli á Íslandi en hún var metin til fjár hér áður fyrr og dæmi um það má sjá í Grágás þar sem viss sekt beið þeirra manna sem stálu hvönn úr annarra manna görðum. Mörgum er illa við hvönnina en það er misskilingur að hún sé hið versta flagð. Núna er t.d. hægt að fá sér nokkur lauf í bolla og hella yfir sjóðandi heitu vatni, bíða í 10 mín, og drekka kraftmikið vor te í boði hvannarinnar.

Brenninetla (Urtica dioeca)

Þetta er önnur kraftmikil lækningajurt og ég plantaði henni í fyrrasumar við læk þar sem fáir ganga um. Núna er hún koma upp úr jörðinni og tekur vel við sér. Þessi jurt er vatnslosandi og góð gigtarjurt.  Ef hún brennir þá er það bara hressandi stingur í nokkrar mínútur sem er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Valurt (Symphytum officinale)

 Þessi jurt vex eins og brjálaður arfi, á hana koma falleg fjólublá blóm og úr blöðunum bý ég til græðandi salva. Þetta er sú jurt sem er hvað best að nota þegar þarf að græða erfið sár sem vilja ekki gróa.  Hunangsflugurnar elska valurtina. Þessa jurt þarf að passa þannig að hún dreifi sér ekki út um allt.

Hafþyrnir (Hippophae rhamnoides)

Hér eru hafþyrnarnir mínir tveir, hjónin. Karlinn er til vinstri á myndinni en konan til hægri.  Ef þið ætlið að kaupa ykkur hafþyrni passið þá að kaupa ykkur hjón því ef bæði kynin eru ekki á svæðinu þá verða ekki til nein ber. Ég er svakalega spennt að fá uppskeru af berjum af þessum trjám, en þau eru auðug af c- vítamíni og e-vítamíni. Þessi ber er sögð vera ofurfæði og allra meina bót. Ég trúi því, því ég hef smakkað safa af þeim og hann var guðdómlegur.

Sólberjarunnar (Ribes nigrum)

Þetta er stór breiða af sólberjarunnum. Það kemur mikið af berjum á þá, yndislegum svörtum og súrum berjum. Ég nýti einnig laufin í te sem er mjög gott. Núna eru nokkur lauf að kíkja út úr greinunum.  Þessi ber eru c-vítamín rík full af steinefnum og andoxunarefnum.

Rifsber ( Ribes rubrum)

Rifsið er einnig að taka við sér. Fallegu rauðu berin sem koma í haust eru góð í sultur og hlaup. Á komandi hausti ætla ég einnig að tína laufin til að nota í te. Ég kaupi aldrei jurtate, tíni allt mitt sjálf. Rifsberin eru súr eins og sólberin og einnig eru þau rík af c-vítamíni, steinefnum og andoxunarefnum. Það mætti segja um öll ber að þau séu góð fyrir okkur og líkamanum nauðsynleg.

 Jarðarber (Fragaria virginiana)

Jarðarberin eru í uppáhaldi hjá fleirum en mér. Sniglar og mýs elska berin mín og eru alltaf á undan mér að fá sér bita. Nú ætlar búkonan hins vegar að snúa á snigla og mýs og hún ætlar að rækta jarðarberin í hengipottum. En mýs og sniglar þurfa ekki að örvænta ég get ekki rætað þau öll í hengipottum.

Grænmetisgarður stækkaður

Þarna er Baddi á Hraðastöðum að taka ofan af garðinum. Þetta gerði hann einnig við syðri garðinn og nú býður okkar skemmtileg vinna að steinahreinsa og bæta nýrri mold í garðinn. Ég veit að sú hreyfing sem maður fær út úr garðyrkju er ein sú heilnæmasta. Þar hreyfir þú þig úti í fersku lofti, við störf sem gefa af sér heilnæmann mat í lok sumars. Gæti ekki verið betra.

2 thoughts on “Vorplönturnar vakna

  1. slemlilegt og frodlegt mig langar svo ad eignast aspas plontu hef hringt i allar blomabudir hvergi til ,veist tu eitthvad hvar eg get nalgast svona plontu

    • Sæl. Nei hef ekki fundið aspas rætur til sölu á Íslandi. Er bara í þolinmóða gírnum að rækta aspasinn frá fræi, sem sagt ekki hægt að nýta hann fyrr en á þriðja ári. En það er verið að selja aspas rætur í garðyrkjustöðvum erlendis sem eru eldri en þriggja ára, en held að það sé ekki leyfilegt að flytja þær inn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s