Brauð í fötu

Þetta er franskbrauð eins og þau gerast best. Brauðið heitir fötubrauð vegna þess að deigið er hægt að geyma í fötu inn í ísskáp í allt að 10- 12 daga. Svo er hægt að taka klípu af því til að nota í brauð eða pizzubotn. Brauðið er einstaklega stökkt og bragðgott.

Ég leyfi mér að segja að það er betra en úr besta bakaríi. Það er gott að eiga þetta deig inni í ísskáp og ekkert mál að vippa í eitt brauð þegar deigið er þegar tilbúið. Uppskriftina rakst ég á í fallegu bókinni Góður matur -gott líf í takt við árstíðirnar, sem kom út í lok árs 2011 og eru höfundar hennar Inga Elsa Bergþórsdóttir og Gísli Egill Hrafnsson. Eiga þau þökk skilið fyrir aðgengilegar og upplýsandi uppskriftir. Búkonan sem sagt mælir eindregið með þessari bók.  En aftur að brauðinu. Ég hef aðeins breytt aðferðinni.

Deig
1 kg próteinríkt brauðhveiti, er í bláum pokum frá Kornax
750 ml volgt vatn, ekki meir en 37°C
1 1/2 msk þurrger
1 msk gróft salt, notaði sjávarsalt

Hitið vatnið, hellið í skál og setjið gerið út í, leysið það vel upp. Því næst setjið þið hveitið og að seinustu saltið. Hrærið vel saman, þetta deig á að vera mjög blautt. Leyfið því síðan að lyftast á frekar hlýjum stað í um það bil tvo tíma. Næst finnið þið fötu eða skál og hellið öllu deiginu í hana, setjið lok á ef ekki er til lok notið þá plastfilmu og setjið inn í ísskáp.

Deig á leiðinni inn í ísskáp.

Opnið fötuna svona af og til þegar þið opnið ísskápinn til að hleypa loftinu úr henni, sumum finnst best að loka ekki alveg fötunni til að hleypa lofti inn og út vegna gerjunarinnar.

Deig tekið úr ísskáp daginn eftir að það var búið til.

Best er að baka úr deiginu daginn eftir að það er búið til. Þá skuluð þið setja smjörpappír á brauðbretti og hveiti ofan á smjörpappírinn. Svo setjið þið smá hveiti yfir deigið þar sem það er mjög blautt og takið klípu af deiginu svona á stærð við brennó bolta sem er minni en handbolti. Erfitt að útskýra en gott að prófa sig áfram, hnoðið deiginu aðeins saman og setjið ofan á hveitistráðann smjörpappírinn. Dreifið hveiti létt yfir brauðið og setjið viskustykki yfir. Látið lyftast í 40 mínútur á volgum stað. Skerið rákir í brauðið með beittum hníf þegar það er búið að lyfta sér.

Deigið tilbúið á leið inn í ofninn.

Þegar 20 mín eru eftir af hefunartímanum þá skuluð þið kveikja á ofninum og hita hann í hæsta hita, 250°C. Setjið pizzustein inn í ofninn eða ofnskúffu og látið þetta hitna með ofninum. Þegar hefunartíminn er liðinn skuluð þið sjóða vatn í katlinum og hella því í eitthvert form sem þið setjið síðan á botn ofnsins. Þetta vatn mun mynda gufu í ofninum sem hjálpar til við að fá þessa eftirsóknarverðu og góðu skorpu.

Sjóðandi vatn komið í formið.

Næsta skref er að setja brauðið í ofninn. Þá þarf að opna ofninn snögglega og skella brauðinu inn og passið að brenna ykkur ekki. Þegar þið setjið brauðið inn þá dragið þið smjörpappírinn með brauðinu á ofan á pizzusteininn eða ofnskúffuna. Loka ofninum og hafa á hæstu stillingu í 10-15 mínútur.  Lækkið svo hitann í 230°C.

Bökunartíminn sjálfur er allt upp í 30-40 mínútur. Ég er enn að æfa mig í því að vera nógu snögg að setja deigið inn í ofninn og passa að deigið verði ekki bara að einni köku þegar ég er að draga það yfir á pizzusteininn, en þetta kemur. Munið að ofnar eru mismunandi þannig að bökunartíminn getur verið allt annar í ykkar ofni. Reglan er sú að fylgjast vel með brauðinu, þegar það er orðið fallega gullið, þá ætti það að vera tilbúið.

Gaman er að prófa að blanda saman hveiti, nota heilhveiti jafnt á móti hveiti.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s