Graskersbaka


Í Kanada og Bandaríkjunum þá er graskersbakan einkennandi fyrir Þakkargjörðardaginn. Hlaðborðið svignar af kræsingum og alltaf er eina eða fleiri graskersbökur að finna á borðinu. Þessi baka tengist haustinu og byrjun vetrar en þá er uppskeran nýkomin í hús. Það er hægt að finna grasker í dós í ,,Litlu Ameríku“ en það kalla ég búðina Kost. Ég væri til í að geta keypt heilt grasker og gert fyllinguna mína úr því, en þetta er næst því að vera fullkomið og kom á óvart þegar farið var að smakka.

Húskarlinn minn er brjálaður í graskersbökur en hver munnbiti færir hann aftur til æskuáranna í Bandaríkjunum þar sem sumarið og gleðin ríkti. Bökur gáfu mér höfuðverk þegar ég bjó í Kanada, ég skildi ekkert í því hvernig þær væru búnar til. Í búðinni var hægt að kaupa frosnar bökuskeljar sem átti eftir að baka og tilbúnar fyllingar. Ég skildi ekki upp né niður í því hvernig ætti að setja fyllingu í svona skel, hvað ætti að baka fyrst, skelina tóma eða með fyllingunni og hvernig setur maður þetta lok á bökuna?

Eftir miklar pælingar fór ég að prófa mig áfram og komst inn í bökuheiminn. T.d þurfa bökur ekkert alltaf að vera með loki og það er hið minnsta mál að búa til fyllingar frá grunni. Uppskriftin sem ég gef hér upp er af bökubotni úr bókinni Moosewood Cookbook, ég mæli  með þessarri uppskrift, þar sem deigið er sérlega viðráðanlegt og bragðgott.

Uppskriftin af fyllingunni kemur úr sömu bók. Ég mun síðar gefa uppskriftir af berjabökum og einnig sýna hvernig hægt er að setja lok á bökuna. Þið þurfið að eiga einhvers konar eldfastann disk eða bökudisk sem er um það bil 25 cm í þvermál. Bestu bökudiskarnir eru þeir sem eru úr gleri, sem gerir það að verkum að hægt er að athuga hvort botninn sé ekki örugglega fullbakaður. Ef það sjást dökkir fletir í bökubotninum þá þarf að baka skelina aðeins lengur.

Þetta er grasker í dós, sem búið er að mauka.

Bökuskelin
6 msk smjör
210 g hveiti
4 msk ískallt vatn

Graskersfylling
1 dós af graskeri, 822 g
3 msk sykur
3 msk púðursykur
1/2 tsk negul duft
1 1/2 tks kanil duft
1 1/2 tsk engifer duft
1/2 tsk salt
2 egg
340 ml mjólk

Bökuskelin
Það eru engin geimvísindi að búa til bökuskel. Galdurinn er að hafa ískallt smjör og ískallt vatn. Byrjið á því að setja hveiti í skál ásamt smjörinu.

Það er eitthvað við smjör, það gerir allt gott.

Notið tvo gaffla til að mylja smjörið saman við hveitið, þar til þetta lítur út eins og gróft mjöl.

Smjör og hveitiblandan tilbúin fyrir ískallt vatn.

Þá setjið þið vatnið og passið að hafa alls ekki of mikið, bara nóg til að deigið hangi saman. Hnoðið aðeins saman, hægt er að búa til bökudeigið daginn áður, vefja því inn í plastfilmu og geyma í kæli, takið það út um það bil 15 mínútum áður en þið ætlið að fletja það út.

Deigið tilbúið.

Fletjið út og setjið smá hveiti á borðið fyrst. Þegar þið eruð að fletja deigið út þá fletjið þið út frá miðjunni og myndið hringlaga deig. Mátið bökudiskinn ykkar við deigið, ef deigið nær um það bil 3-4 cm út fyrir diskinn þá ættuð þið að vera búin að fletja út.

Allt tilbúið nú er bara að vinda sér í það að fletja út deigið.

Þarna er komið vel útflatt bökudeig, ekki of þunnt og ekki of þykkt.

Takið nú deigið og setjið rólega ofan á diskinn. Þrýstið deiginu að hliðunum og festið það ofan á brúnum disksins. Hver og einn er með sína aðferð við þessa iðju en ég pressa deigið vel ofan á barmana. Takið síðan gaffal og pikkið í hliðarnar og botninn. Setjið nú diskinn í kæli á meðan þið búið til fyllinguna, þannig komið þið í veg fyrir að deigð sígi niður og það helst betur uppi á köntunum meðan þið bakið bökuna.

Deigið komið ofan á diskinn, nú skal hafist handa við að aðlaga það disknum.

Búin að klippa, skera og pressa deigið vel ofan á barmana á forminu.

Fyllingin
Setjið allt í einu skál, hrærið vel með písk og hellið í bökuskelina.

Fyllingin tilbúin með öllu tilheyrandi: eggjum, mjólk og kryddum.

Fyllingin komin í óbakaða bökuskelina.

Bökunartími

Bakið við 190° í 10 mínútur, lækkið síðan hitann í 175° og bakið í aðrar 40 mínútur. Bakan er tilbúin þegar miðjan hreyfist lítið sem ekki neitt þegar þið hrisstið bökuna.

Hægt er að bera graskersbökuna fram bæði heita eða kalda, en mér finnst hún best heit. Ís eða rjómi er nauðsyn.

Verði ykkur að góðu.

One thought on “Graskersbaka

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s