Portúgalskur saltfiskréttur

Saltfiskur er spennandi efni til að vinna með í eldhúsinu. Hann hefur upp á svo marga möguleika að bjóða að það er erfitt að velja á milli uppskrifta. Hér hafið þið góða uppskrift af saltfisks ofnrétti. Það er ekkert vesen hér með að útvatna fiskinn þannig að ekki halda að þetta sé flókið.

Þessi réttur kemur svo sannarlega á óvart. Ég man eftir því sem barn þegar ég var að reyna að deyfa bragðið af vatnssoðnum saltfiskinum með því að tyggja hann með rúgbrauðinu og kartöflunum og oft var fiskurinn svo brimsaltur að ég lá með hausinn undir vatnskrananum allan liðlangann daginn. Eftir það fékk ég hálfgert ógeð á saltfiski. En svo vaknaði þessi mataráhugi sem ég hef enga stjórn á og ég fór að spá í hin ýmsu hráefni og þar á meðal saltfiskinn. Þessa uppskrift rakst ég á í Vikunni heftinu frá 19. janúar 2012. Þar var kona nokkur að deila uppskriftum sem féllu alltaf í kramið hjá fjölskyldunni, ég ákvað að taka hana trúarlega og páraði uppskriftina niður á blað og uppskriftin stendur svo sannarlega fyrir sínu.

Það er erfitt fyrir mig að fara af bæ og sjá uppskrift einhvers staðar sem mér lýst vel á því ég verð að skrifa hana niður, allar kvittanir, nótur og blaðsnepplar eru útpáraðir af uppskriftum. Svona var amma Hulda á Blönduósi, hún átti haug af uppskriftum sem hún hafði klippt út úr blöðum. Ég held þetta erfist í einhverja leggi þessi matarástríða, því mamma er svona, móður afi minn hann Leifur var bryti á varðskipum í mörg ár og langamma mín Sigrún eldaði fyrir kostgangara og vann á matstofu Sigríðar í Reykjavík í einhver ár. Síðan eru tveir bræður mínir bakarar að mennt og geta galdrað fram hinar ótrúlegustu kökur og mágkonum mínum tveimur finnst ósköp gaman að baka.  Jæja en yfir í uppskriftina.

Innihald
600 g soðnar kartöflur, með eða án hýðist fer eftir smekk
600 g soðinn saltfiskur
1 stk laukur, smátt saxaður
2 hvítlauksrif, smátt söxuð
1 paprika, litur eftir smekk, smátt söxuð
olía
50 grömm smjör
1 stk gullostur eða osturinn ljúflingur
1-2 tómatar
Ostur ofan á

Ef þið eruð að nota frosinn saltfisk látið hann aðeins byrja að þiðna í vaskinum því þá er leikandi létt að roðfletta hann, þegar hann er orðin grautlinur þarf smá tækni til að roðfletta hann. Þannig að sparið ykkur tíma og fyrirhöfn og rífið roðið af hálf afþýddum flökunum. Skerið saltfiskinn í bita svona 2 cm stóra og setjið í pott með vatni í, náið upp suðu. Hellið vatninu af og setjið fiskinn til hliðar. Sjóðið kartöflurnar,ég sauð mínar með hýðinu því ég er hrifinn af því að borða hýði annars ef þið viljið ekki hýðið þá er betra að skræla þær áður en þið sjóðið þær. Meðan kartöflurnar eru að sjóða skuluð þið saxa laukinn, hvítlaukinn og paprikuna og steikja við vægan hita á pönnu með smá ólífuolíu. Nú er allt tilbúið til að setja réttinn saman. Takið fram stóra skál og setjið fiskinn, kartöflurnar, grænmetið út í hana og hrærið aðeins saman. Setjið svo niðurskorinn gullostinn eða ljúflinginn í skálina.

Þarna var ég búin að blanda grænmetinu, kartöflunum og fiskinum aðeins saman og nýbúin að setja ljúflinginn en það heitir osturinn út í blönduna.

Hrærið þetta allt mjög vel saman, þannig að osturinn hafi bráðnað og fiskur, grænmeti og kartöflur hafa samlagast. Setjið nú blönduna í eldfast stórt mót og sléttið vel úr henni. Stingið litlum smjörbitum hér og þar inn í fiskblönduna. Skerið tómata í sneiðar og leggið yfir fiskinn og að lokum setjið ost ofan á. Ég mæli með brauðosti en einnig er gott að setja nokkra gráðostbita ofan á tómatana.
Bakið í ofni við 180°C í 15-20 mínútur, eða þar til osturinn er bráðnaður ofan á réttinum, fallega brúnn litur er komin á allt og það er farið að snarka vel í.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s