Morgunverðar brauðbollur

Vaknaði eldsnemma og ákvað að nýta tímann vel. Bjó til deig í brauðbollur og á meðan það var að hefast fór ég út og setti nokkur sumarblóm ofan í jörðina. Bakaði svo þessar yndislega mjúku og bragðgóðu bollur. Þær lífguðu heldur betur upp á morgunverðarborðið.

Ég hef átt þessa uppskrift lengi og auðvitað er hún páruð á innkaupastrimil. Það er ekki auðvelt að finna uppskrift af bollum sem ekki verða strax harðar eftir að þær kólna. Þessar bollur verða bústnar, fallega brúnar, haldast mjúkar lengi og leyndarmálið er að nota kotasælu og AB mjólk í deigið. Ég setti einnig hörfræ og sólblómafræ út í deigið og sesamfræ ofan á bollurnar. Geymið ávallt öll fræ og hnetur í ísskáp þannig komið þið í veg fyrir að þessi gæðaefni þráni. Hörfræin eru góð fyrir meltinguna og þau hafa verið sögð vinna gegn myndun krabbameins í líkamanum, einnig innihalda þau omega 3 fitu. Ég setti þau heil í deigið en þegar þau eru möluð þá næst meiri næring úr þeim. Ef þið malið þau, geymið þau þá í glerkrukku inn í ísskáp.

Sólblómafræin eru bragðgóð og einstaklega næringarrík þau innihalda næstum því öll vítamín sem við þurfum fyrir utan C-vítamín. Það hefur verið sagt að hvert fræ sé einn lítill sólargeisli fyrir líkamann. Sesamfræin eru lítil hvít fræ sem gera bollurnar girnilegar en svo eru þau auðug af kalki, magnesíum, járni, zinki, B1-vítamíni, kopar og mangani. Ég fékk 31 bollu út úr þessari uppskrift og einnig gleði við að búa þær til.

Innihald
2 dl mjólk
3 dl vatn
3 tsk þurrger
2 tsk sykur
70 ml AB mjólk
70 g kotasæla
1/2 dl hörfræ
1/2 dl sólblómafræ
1 1/2 tsk salt
100 g haframjöl
100 g heilhveiti
500 g hveiti

Aðferð
Hitið mjólk og vatn í potti upp í 37°C.  Vökvinn má alls ekki verða heitari en þetta því annars drepið þið gerið. Hellið vökvanum í stóra skál og hrærið gerið saman við. Sykurinn fer næst út í vökvann og hrærið honum vel saman við með handpísk. Leyfið þessari blöndu að standa í um það bil 5 mínútur. Hrærið nú AB mjólk og kotasælunni saman við ásamt hör- og sólblómafræjunum. Síðan er saltinu hrært saman við og að endingu er þurrefnunum bætt saman við. Deigið er blautt en leyfið því að lyfta sér þannig. Setjið nú skálina á volgann stað með viskustykki yfir og leyfið deiginu að lyftast í 1 klst. Áður en þið byrjið að vinna með hveitið setjið smá hveiti saman við það og hnoðið þar til þið eruð komið með gott deig. Brauðdeig er gott ef það límist ekki við hendina á þér en er samt rakt.

Næsta skref er að setja smjörpappír á tvær bökunarplötur. Mótið bollur með því að taka væna klípu af deiginu og rúlla klípunni upp í bollu á milli lófanna. Prófið ykkur áfram með stærðina það er gott miða við að hafa ekki hverja bollu stærri en mandarínu. Raðið bollunum með smá millibil á bökunarplötuna. Hrærið upp eitt egg í bolla og pennslið bollurnar með egginu, reynið að hylja hverja bollu vel með vökvanum. Setjið smá klípu af sesamfræjum ofan á hverja bollu. Þegar ég baka brauð eða brauðbollur þá set ég ávallt form fullt af vatni neðst í ofninn, það gefur góðann raka og gerir bollurnar enn þá mýkri.

Egg og sólblómafræ komin ofan á kollanna á bollunum.

Bakið við 180°C í 30 mínútur, bollurnar eru tilbúnar þegar þær eru orðnar fallega brúnar. Prófið önnur fræ og leikið ykkur með hveitisamsetninguna, þannig verða til skemmtilegar uppskriftir.

Yndælis brauðilmur og ómótstæðilegar bollur komnar út úr ofninum

Verði ykkur að góðu.

Morgunverðarborð búkonunnar. Heimagerðar sultur, heimagerðar bollur, gúrka sem við ræktuðum og egg frá íslenskum hænum sem búa á Blönduósi. Þetta er lífið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s