Alls kyns frá móður jörð

Þessir fögru tómatar vaxa í gróðurhúsinu okkar. Húskarlinn er sérfróður um nöfn þeirra og bragðgæði. Ég gúffa þeim bara í mig og nöfnin þeysast um hausinn á mér. Hvern laugardag eru þeir seldir á sveitamarkaðinum í Mosfellsdal hjá Mosskógum, frá kl 11:00 til 16:00 ef þeir eru ekki uppseldir þá.

Þetta eru sjö afbrigði af tómötum sem eru hvert öðru betra, ég get ekki gert upp á milli þeirra, þeir eru allir ljúffengir og ógleymanlegir.

Tvö afbrigði af konfekttómötum, smá sítrónukeimur er af gulu tómötunum og litlu rauðu eru einstaklega sætir.

Sumir tómatanna verða ógnar stórir eins og þessi hér.

Þessi tómatur heitir Moonglow og er hið mesta undur eins og þið sjáið á þyngdinni.

Þessa dagana er margt hægt að tína úti í guðs grænni náttúrunni ásamt því að fylgjast með því vaxa sem gróðursett var í vor. Ég er búin að tína öll chillíin úr gróðurhúsin, jarðarberin mín vaxa ótrúlega vel, bláberin eru að verða tilbúin og svo er það t.d. blóðbergið Thymus vulgaris sem allir ættu að vera að tína þessa dagana.

Ómótstæðilegt blóðberg.

Gott er að drekka blóðbergs-te þegar kvef eða hálsbólga er að herja á líkamann. Einnig er þetta fullkomið krydd á lambið. Þegar þið tínið jurtir munið að taka alltaf með ykkur skæri og körfur eða léreftspoka til að setja jurtirnar í, koddaver virka t.d. mjög vel sem jurtapokar.

Svona gerir fullkomin grasakona eða grasakarl þetta.

Alls ekki tína jurtir í plastpoka, það lætur þær svitna og verða slepjulegar. Skærin notið þið til að klippa jurtirnar, það fer í mínar fínustu ef fólk rífur upp jurtirnar með rótum þegar einungis er verið að safna laufum eða blómum. Þar með er búið að koma í veg fyrir að jurtin endurnýji sig. Þegar þið komið heim þá skuluð þið dreifa úr jurtunum ofan á lak og passa að sólin skíni ekki á þær meðan þær eru að þorna. Snúið jurtunum einu sinni til tvisvar yfir daginn. Þegar þær eru orðnar þurrar þá skal setja þær  í glerkrukkur eða bréfpoka og merkja með nafni og ári.

Chillí úr gróðurhúsinu, Thai hot efst í körfunni þeir eru banvænir og sjást varla þar sem þeir eru angar smáir og Cyklon eru þessir stóru.

Chillíin vann ég á tvennan máta. Ég saxaði hann allan í þunnar sneiðar og síðan setti ég helminginn í þurrkofninn minn og úr varð ótrúlega gott krydd. En hinn helminginn setti ég í litla poka og frysti. Þar með á ég chillí fyrir veturinn ofan á pizzuna eða í pasta sósuna.

Oreganó að teygja sig upp úr gróðurkassanum. Þessi lauf tíni ég og þurrka og nota sem krydd allan veturinn.

Ég á eftir að tína: maríustakk, hvönn,brenninettlu, myntu og oreganó lauf. Einnig: bláber, krækiber, rifsber, sólber og stikkilsber. Það er líka eftir að sjóða allt brokkólíið og spínatið, taka upp gulrætur, kartöflur og rauðrófurnar. Ég ætla að pikkla mikið af rauðrófunum þær eru ótrúlega góðar með fiski. Búkonan fær bara ofvirkni kast við að lesa allt sem eftir er að gera.

Jarðarberin mín vaxa sem aldrei fyrr. Eini áburðurinn sem ég nota er sauðatað og ég hef aldrei fengið aðra eins uppskeru.

En þetta er lífið að geta útbúið hollan mat úr því sem ræktað er yfir sumarið eða tínt úti í náttúrunni. Þar með ertu viss um að þú ert með 100% gæði sem eru holl fyrir þig og þína. Munið bara þegar þið tínið jurtir að fara langt frá umferð og helst upp í fjöll eða í fáfarna dali. Njótið útiverunnar.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s