Hrákaka með döðlum, sveskjum og súkkulaði

Þar sem það var þáttur í sjónvarpinu í gærkveldi um hráfæði þá mundi ég eftir einu hráfæðis uppskriftinni minni og auðvitað er það kaka sem er kölluð næringarríkt sælgæti.  Hreint undur.

Uppskriftina fékk ég úr Fréttablaðinu árið 2010 en það var söngkonan Valgerður Guðnadóttir sem gaf uppskriftina. Ég breytti uppskriftinni aðeins þar sem ég setti smá vatn í hið holla deig. Hráfæði er inn í dag. Stjörnurnar í Hollywood vilja helst ekki borða annað og hráfæðisveitingastaðir spretta upp eins og gorkúlur í hinum Vestræna heimi. Hér á landi hefur hráfæðisveitingastaðurinn Gló slegið í gegn.

Fólk er farið að sækja í holla rétti og það heldur því fram að því líði betur þegar það borðar grænmetis- og hráfæðisrétti. Ég er sérstaklega hrifin af grænmetisréttum á sumrin og mér líður alltaf vel eftir að hafa borðað þá. Það er  einhvern vegin léttara fæði fyrir meltinguna og einnig spennandi fyrir bragðlaukana að prófa nýja rétti sem koma frá hinum ýmsu matarstefnum.

Grænmeti, ávextir, hnetur, þari og spírur teljast til hráfæðis. Hráfæði er aldrei hitað upp fyrir 47 gráður á celsíus, ástæðan fyrir því er sú að talið er að ef fæðan sé hituð meir þá breytast ensímin í matnum. Mjólkurmatur, unnin matur eða sælgæti telst ekki til hráfæðis, en ég svindla smá með því að nota súkkulaði ofan á hráfæðiskökuna. Endilega sleppið súkkulaðinu ef þið eru strangtrúaðar hráfæðisætur.

Innihald
1 bolli döðlur
1 bolli sveskjur
1 bolli valhnetur
1 banani
1/2 bolli ristaðar kókosflögur
1/2 bolli vatn

Byrjið á því að létt rista kókosflögurnar á pönnu.

Létt ristaðar kókosflögur, látið þær brúnast lítillega.

Blandið síðan öllu vel saman í matvinnsluvél.

Ég á ekki matvinnsluvél, blandarinn nýtist í margt en hér þarf að stoppa og hræra með sleif inn á milli. Deigið er tilbúið þegar þetta er farið að maukast aðeins.

Dreifið úr deiginu á kökudiskinn og setjið í frysti í um það bil tuttugu mínútur. Búið til kremið á meðan kakan kólnar.

Hérna er kakan 100% hráfæðis kaka, án súkkulaðis.

Krem
1 plata 70% súkkulaði
1/4 úr tsk kókosolía

Hitið súkkulaðið yfir vatnsbaði og blandið kókosolíunni saman við. Vatnsbað þýðir að súkkulaðið er sett í lítinn pott sem passar ofan í aðeins stærri pott, í stærri pottinn er sett vatn, magn vatnsins er gott að miða við um 2 cm upp á barm pottsins. Þegar vatnið sýður þá bráðnar súkkulaðið á öruggan máta en ef potturinn með súkkulaðinu er settur beint á helluna þá er hætta á því að súkkulaðið brenni við. Setjið nú kremið á kælda kökuna. Skreytið með kókosflögum, valhnetum og jarðarberjum.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s