Skúffukaka með kanilbragði

Mér var boðið í mat eitt kvöldið og ég bauðst til að baka köku í eftirrétt. Ég bara varð að bjóðast til þess því þá hafði ég tækifæri til þess að baka og prófa nýja uppskrift. Það er mjög gaman að prófa nýjar uppskriftir, einhver gleði og spenna.

Fyrir valinu varð skúffukaka með kanilbragði, ég varlengi búin að skoða uppskriftina, spá í gljáann á kreminu sem kemur vel fram í tímaritinu Gestgjafanum, Bestu uppskriftir ársins 2010. Það er nú fátt hægt að segja um hollustu þessarra köku nema kannski að það sé kanill í henni sem dregur úr aukningu á blóðsykri.

Kökur eru til þess að njóta en ekki til að fá samviskubit yfir. Uppskriftin er þannig að deig er sett neðst í skúffuna, síðan kanilblanda og svo er restin af deiginu sett yfir kanilblönduna. Þessi kaka kemur á óvart þar sem kanilbragðið kemur inn á mildan máta  í gegn um súkkulaðibragðið.

Innihald
240 g hveiti
2 egg
150 g brætt smjör
2 tsk lyftiduft

1 tsk kanill
2 msk kakó, sigtað
250 g sykur
2 1/2 dl mjólk

Kanilblanda sem fer á milli
3 msk sykur
1 tsk kanill
2 tsk kakó, sigtað

Krem
150 g flórsykur
2 msk kakó, sigtað
3 msk brætt smjör
3 msk heitt kaffi
2 tsk vanilludropar

Byrjið á því að smyrja form að stærðinni 20×30 cm og hitið ofninn í 180°C. Setjið hveiti, lyftiduft, kanil og kakó í stóra skál og bætið sykrinum út í, munið að sigta alltaf kakó það er mjög leiðinlegt þegar það eru kakóhaugar í kökunni ykkar. Hellið síðan mjólk og eggjum í skálina og hrærið saman í um það bil tvær mínútur. Bræðið síðan smjörið og hrærið það vel saman við blönduna eða þar til deigið er orðið vel samlagað.

Deigið tilbúið.

Hellið nú helmingnum af deiginu í formið og dreifið vel úr því, síðan dreifið þið vel úr kanilblöndunni og að endingu fer restin af deiginu í formið. Þar sem þið eruð með kanilblöndu á milli er gott að hella deiginu yfir þannig að það dreifist vel yfir alla kanilblönduna og þannig er auðvelt að dreifa varlega úr deiginu með hníf. Með þessari aðferð komið þið í veg fyrir að kanilblandan blandist saman við deigið. Bakið kökuna í miðjum ofni í um það bil 25 mínútur.

Kanilblandan komin yfir deigið.

Restin af deiginu komin yfir kanilblönduna og bara eftir að dreifa varlega úr því með hníf.

Á meðan kakan er að bakast er gott að búa til kremið og setja það á kökuna um leið og hún kemur úr ofninum, þá bráðnar það vel inn í hana. Kremið er gert þannig að öllu innihaldsefnunum er blandað saman í eina skál og allt hrært vel saman.

Kakan gladdi alla og þar með var takmarkinu náð, rjóminn passaði yndislega vel með henni og einnig er gott að hafa salvíu jurtate með.

Takk kæra Þórdís fyrir að leyfa mér að baka í skemmtilega og hlýlega eldhúsinu ykkar.

Verði ykkur að góðu.

One thought on “Skúffukaka með kanilbragði

  1. Við gerðum þessa köku í gær og hún bragðaðist virkilega vel. Held reyndar að það vanti mjólk í uppskriftina – við settum 2 dl mjólk og kakan heppnaðist svona glimmrandi vel! Takk fyrir góðan vef. Kv. Katrín

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s