Möndlukaka

Þegar við erum með matarboð þá búum við venjulega til eitthvað sem við höfum búið til áður. Því stundum tekst ekki alveg eins vel til og ætlað var og þá eru góð ráð dýr. En braut út af þessari reglu í dag. Bökuð var í fyrsta skipti möndlukaka sem var dásamlega góð.

Ég á fallega uppskriftabók frá Williams-Sonoma sem heitir Essentials of baking. Þetta er bók sem útskýrir vel með ljósmyndum og textum margt sem viðkemur bakstri.  Ég læt mig síðan dreyma um að baka hitt og þetta einhvern tímann. Þar á meðal var þessi möndlukaka sem ég gat loksins komið mér í að baka. Það eru ekki heilar, hálfar eða muldnar möndlur í þessari köku, það er frábært efni sem búið er til úr möndlum, sykri og eggjahvítum, þetta er marsípan. Alls ekki hið fullkomna heilsuefni en það sem vegur upp á móti því er að marsípan gerir kökur alveg hrikalega góðar.

Innihald
125 g hveiti
1 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
220 g marsípan
250 g sykur
250 g smjör
6 stór egg
1 tsk vanilludropar
Flórsykur til að skreyta kökuna með

Byrjið á því að hita ofninn í 180°C. Smyrjið hringlaga form sem er ca 25 cm í þvermál, með smjöri og dustið smá hveiti yfir það, þá er miklu auðveldara að ná kökunni úr forminu. Ég veit ekki hvað svona form eru kölluð á íslensku en þau eru kölluð bundt caka form á ensku.

Svona form eru ómissandi fyrir bakara sem eru haldnir baksturs ástríðu og þurfa alltaf að vera að prófa nýjar uppskriftir.

Setjið saman í litla skál: hveiti, salt og lyftiduft. Í stærri skál skal hræra saman smjöri, sykri og marsípani þar til þetta hefur allt samlagast, en þá er blandan orðin kremuð og létt.

Hérna er marsípanið komið í góða veislu með sykrinum og smjörinu. Það er gott að skera þetta í grófa bita áður en farið er að hræra eitthvað í þessari veislu.

Næst er að setja eggin saman við og vanilludropana. Hrærið þetta mjög vel saman, deigið er létt í sér og smá gróft þegar það er tilbúið.

Að lokum setjið þið þurrefnin út í og hrærið þau varlega saman við deigið með sleikju. Ekki hræra þetta hratt saman því þá verður kakan seig og leiðinleg. Setjið í formið og dreifið vel úr deiginu.

Deigið fagra komið í hið hringlaga form.

Bakið kökuna í 40-45 mínútur. Ég fylgdist vel með kökunni og setti álpappír yfir hana þegar ég var búin að baka hana í um 20 mínútur, en þá var hún farin að brúnast aðeins of hratt á toppnum. Munið að enginn ofn er eins. Athugið hvort kakan sé tilbúin með því að stinga tannstöngli í hana, ef tannstöngullinn kemur hreinn út úr henni, þá er hún bökuð.

Látið kökuna kólna í forminu helst á grind, þegar hún er orðin köld hvolfið henni á kökudisk.

Það er svo spennandi að taka velheppnaða köku út úr ofninum og ilmurinn er alltaf svo góður. Þarna var búkonan spennt að smakka en beið fram á kvöldið eftir gestunum góðu.

Geymið kökuna annað hvort undir forminu sjálfu eða undir hálf röku viskustykki. Rétt áður en kakan er borin fram skreytið hana þá með smá flórsykri sem settur er í sigti og dustið honum varlega yfir kökuna. Alveg frábær og einföld skreyting.

Berið fram með þeyttum rjóma og rjúkandi heitu te. Yndisleg kaka til að bjóða upp á sem eftirrétt eftir kraftmikla kjötmáltíð.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s