Uxahalasúpan frá Svanshóli

Uxahalasúpa er ein af þessum súpum sem gott er að bjóða upp á þegar von er á mörgum í mat. Með henni er borin fram kartöflustappa og heimagert brauð. Uxahala er t.d. hægt að nálgast í Kolaportinu og best er að mæta fyrir hádegi á laugardegi því það er barist um þá af sælkerum.Uxahalar á Íslandi eru með ódýrari mat sem hægt er að kaupa og ég mæli með að kaupa nokkra pakka af uxahölum og frysta. Súpan er einstaklega saðsöm, kraftmikil og mjög bragðgóð. Þessa súpu smakkaði ég í fyrsta skipti á Svanshóli í Bjarnarfirði á Ströndum. Þegar ég kom á svæðið á fögru sumarkvöldi í júlí varð ég svo glöð þegar ég sá súpuna malla í potti sem var staðsettur yfir eldinum úti í garði.

Ekki varð gleðin minni þegar ég fékk mér fyrstu skeiðina, hrein dásemd. Ég aðhyllist flest allt í matargerð sem tengist fornum matarhefðum og það að elda úti á eldinum getur varla fornara orðið. Ef þið hafið pláss í garðinum ykkar þá skulið þið endilega setja upp lítið eldstæði þar sem hægt er að elda dýrindis máltíðir að hætti formæðra ykkar og forfeðra með smá nútíma ívafi. Það er næst á dagskrá í framkvæmdum hjá búkonunni að útbúa lítið útieldhús í sveitinni.

Innihald
2 kg uxahalar, skornir í bita
Skvetta af ólífuolíu
2 laukar, saxaðir í sneiðar
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
3 gulrætur, sneiddar í sneiðar
3 sneiðar beikon, skornar í bita
2 lárviðarlauf
1 1/2 msk rósmarín
1 msk timjan
650 gr rauðvínber
2 lítrar kjötsoð, hægt að búa til úr lífrænt vottuðum kjötkrafti

Aðferð
Ég mæli með því að þið hafa tvær skálar tilbúnar, eina undir kjötið og grænmetið og aðra til að geyma vínberin í. Byrjið á því að setja tvo lítra af vatni í pott og tvo kubba af kjötkrafti, sjóðið upp og takið af heitri hellunni, gott er að píska aðeins í pottinum til að ná kubbunum vel í sundur. Skerið lauk,hvítlauk,gulrætur og beikon niður í bita. Skolið uxahalana undir köldu vatni og skerið þá í bita. Búkonan hefur nú eignast alveg frábær skurðarbretti sem eru úr þunnu plasti og eru í hinum ýmsu litum sem tilheyra hinum ýmsu matvælum. Það er gott að nota þessa bretti og einnig mjög auðvelt að þrífa þau.

Þetta var stærsti halinn, fagur rauður er hann ofan á nýja rauða skurðarbrettinu sem er bara ætlað hráu rauðu kjöti. Það var svo gaman að vinna með þessa hala.

Skolið vínberin, skerið í tvennt og takið kjarnann úr.

Rauðu vínberin skorin í sneiðar á grænu bretti sem er bara fyrir grænmeti og ávexti. Hrein snilld, elska nýjar eldhúsvörur og alveg sérstaklega mikið þegar þær verða ómissandi. 

Finnið stóran pott og hitið ólífuolíuna í honum. Byrjið á því að steikja grænmetið ásamt kjötbitunum. Steikið þar til það er komin ljósbrúnn litur á kjötið og grænmetið er orðið sveitt, hrærið vel í á meðan. Hellið nú kjötsoðinu út í pottinn ásamt kryddunum, látið sjóða í hálf tíma. Veiðið vel ofan af hroðið sem kemur þegar byrjað er að sjóða kjötið, mæli með því að nota fiskispaða í þetta verk.  Setjið síðan 3/4 hluta af vínberjunum út í og látið malla í þrjár klukkustundir við vægan hita.

Setjið afganginn af vínberjunum út í rétt áður en súpan er borin á borð. Berið súpuna síðan fram með brauði og kartöflustöppu. Ég setti kartöflustöppu á diskinn með súpunni, en mæli frekar með því að hafa stöppuna á diski við hliðina á súpunni. Þessi súpa er betri daginn eftir en þannig er það með flestar súpur og kássur.

Búkonan þakkar Höllu á Svanshóli kærlega fyrir að senda uppskriftina og  viðurkennt er að smá var breytt um aðferð sem er það sem gerir matargerð svo skemmtilega.

Verði ykkur að góðu.

One thought on “Uxahalasúpan frá Svanshóli

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s