Smalabaka

Þetta er enskur réttur sem oft er hægt að kaupa á krám í Englandi eða Skotlandi. Þessi smalabaka (Shepards Pie) er einhver girnilegasti pöbba matur sem ég hef borðað en ég hef aldrei búið þennan rétt til áður, fyrr en nú. 

Það eru til margar uppskriftir af smalaböku og ég skoðaði nokkrar og síðan bjó ég til mína eigin. Það var alltaf eitthvað sem ég vildi ekki nota í uppskriftunum eða mér fannst vanta eitthvað í uppskriftirnar. Þannig að hér er smalabaka búkonunnar. Í henni eru t.d. grænar baunir, gulrætur, tómatar og grænmetissoð. Gerið ráð fyrir góðum tveimur tímum í þetta skemmtilega verk þar sem það þarf að sjóða og skræla kartöflur og kássan þarf að malla rólega í eina klukkustund og síðan þarf bakan að vera í ofninum í hálftíma.


Innihald
550 g nauta- eða lambahakk
2 gulrætur, ca 100 g, saxaðar í sneiðar
2 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt
1 laukur, saxaður smátt
2 sellerí stilkar, saxaðir smátt
100 g grænar baunir,frosnar baunir virka vel
440 g tómatar saxaðir smátt eða 1 dós af lífrænt vottuðum tómötum
250 ml grænmetissoð
Sjávarsalt
Grófur svartur pipar

Setti þessa mynd inn til að sýna hvernig grænu baunirnar líta út, þær eru kallaðar Golden peas utan á pokanum.

Kartöflumús
1.5 kg kartöflur
150 ml mjólk
Klípa af smjöri
1/2 tsk salt


Byrjið á því að skræla kartöflurnar og sjóða þær. Búið þar næst til grænmetissoðið með því að setja einn lífrænt vottaðann grænmetistening í pott ásamt 250 ml af vatni, náið upp suðu og pískið vel í pottinum, setjið til hliðar. Saxið gulrætur, hvítlauk, lauk og sellerí. Í dag er 23. október og ég var að taka inn seinustu leggina af selleríinu sem ég ræktaði í sumar.

Sellerí er harðgert og frábært grænmeti. Sem ég mæli eindregið með því að þið ræktið í eldhúsgarðinum ykkar.

Steikið síðan allt saxaða grænmetið ásamt grænu baununum á pönnu með ólífuolíu, þegar þetta er orðið mjúkt, setjið þá hakkið út á allt saman og steikið vel, kryddið með salti og pipar. Næst er að setja söxuðu tómatana út í, ég átti ekki tómata í dós en vigtaði nokkra tómata þar til ég náði upp í aðeins meir en 440 g.

Bragðgæði tómatana úr gróðurhúsinu okkar eru ótrúleg.

Ég saxaði tómatana  og hellti þeim út í kássuna ásamt grænmetissoðinu. Þessa kássu látið þið malla við vægann hita í 1 klst, með lokið að hálfu ofan á pönnunni. Gott er að hræra af og til í þessu.

Allt að byrja að malla í litla eldhúsinu, áður en að tómatar og grænmetissoð var sett út á pönnuna.

Nú ættu kartöflurnar að vera orðnar soðnar. Ég var ekki svo forsjál að skræla þær áður en ég sauð þær, þannig að við tók skræling hjá mér áður en ég bjó til kartöflumúsina.

Kartöflurnar sprungu og létu öllum illum látum við mig.

Ég geri oftast kartöflumúsina með skrælinu vegna þess að mér finnst skrælið svo gott á bragðið, en þar sem músin átti að vera ofan á kássunni þá kunni ég ekki við það að hafa skræl út um allan rétt. Næst hellti ég öllum kartöflunum í skál og setti smjör, mjólk og salt út á, síðan stappaði ég allt saman með kartöflustappara þar til tilbúin var þessi mjúka og fína kartöflumús.

Stappan tilbúin, með smjöri, salti og mjólk. Ef ykkur finnst hún of þurr, bætið við mjólk og smá smjöri. Munið að smakka hana til.

Þegar kjötkássan er tilbúin þá skuluð þið ausa henni ásamt soðinu sem eftir er á pönnunni í eldfast mót, dreifið vel úr henni. Síðan setjið þið kartöflumúsina ofan á kjötið.

Allt að verða tilbúið.

Að endingu er gott að setja nokkra litla rósmarín vendi ofan á allt til að fá smá lit á kartöflumúsina og einnig til að auka bragðgæði smalabökunnar. Ég var með þurrkað rósmarín og tók nokkur klípur af rósmarín laufum út um alla böku. Vinkona mín sem á írskan mann læddi þeirri vitneskju að mér að það er flott að setja smalabökuna í sparifötin með því að hylja toppinn með góðum osti, endilega prufið það.

Bakið nú bökuna í 30 mín við 180°C, eða þar til komin er fallegur ljós brúnn litur á kartöflumúsina og aðeins er farið að bubbla í réttinum. Berið fram með soðnu brokkólí. Alveg fullkominn vetrarréttur.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s