Fromage blanc

Þegar myrkrið færist yfir þá er gott að dunda sér í eldhúsinu við ostagerð. Bjó til Fromage Blanc í dag með þremur mismunandi brögðum: kúmen ost,hreinan ost og pipar ost.  Ostagerðar þekking var eitt sinn almenn hér á landi en þekkingin hvarf með breyttum tímum yfir til framleiðslufyrirtækja.

Ég segi: takið þekkinguna til baka og farið að búa til ykkar eigin ost. Fromage Blanc er svokallaður mjúkostur. Hann er auðvelt að búa til og það er hægt að geyma hann í allt að tvær vikur í ísskáp. Þegar þið eruð komin upp á lagið með það að búa til mjúkosta þá er hægt að fara yfir í að búa til harða osta sem er aðeins flóknara að útbúa en það er ekkert óyfirstíganlegt. Ég er að byrja að æfa mig í ostagerðinni og mun halda skrá um það hér.

Notið hráefni sem þið vitið að eru góð fyrir ykkur eins og t.d. lífrænt vottaða mjólk og jurtir sem þið sjálf hafið tínt. Það er hægt að setja hinar ýmsu jurtir í ostana. Eins og t.d. blóðberg, hvönn eða kúmen. Það  er einfalt mál að búa til osta, það eina sem þarf í verkið er áhuginn, nokkur verkfæri sem flestir eiga í eldhúsinu og síðan ostahleypi og gerla. Þá hluti er t.d. hægt að panta á netinu í gegnum Cheesemaking  fyrirtækið, sem staðsett er í Bandaríkjunum.

Það er best að gera Fromage Blanc að kveldi t.d. eftir kvöldmatinn, því osturinn þarf að hlaupa í 12 klukkustundir í herbergi þar sem hitinn er um það bil 22°C t.d. í eldhúsinu. Síðan þarf hann að hanga í ostagrisju í aðrar 12 klukkustundir við álíka hitastig, eftir það er hann tilbúin. Þá getið þið saltað hann, kryddað og pakkað honum. Notið sérstakt ostasalt í hann annað salt mun stöðva þroskaferil ostsins.

Ostagerðarfyrirtækið Cheesemaking er með allt sem til þarf fyrir ostagerð. Frá bókum upp í stórar ostapressur. Þegar þið eruð að búa til osta þá þarf að gæta fyllsta hreinlætis. Þvoðið allt í mjög heitu vatni áður en farið er að vinna með mjólkina. Þegar þið eruð búin að vinna með ostinn, þá skolið þið allt fyrst með köldu vatni til að ná mjólkinni vel af áhöldunum og síðan með mjög heitu vatni. Aldrei nota álpotta eða plast. Notið helst allt úr gleri eða stáli. Ég mæli eindregið með bókinni Home Cheese Making eftir Ricki Carrol, en það er ostadrottningin sem á fyrirtækið Cheesemaking.

Þetta er ein af mínum uppáhalds bókum, já ég veit, ég er matarnörd.

Við gerð þessa osts þurfti ég þetta:

Innihald
3.75 lítrar nýmjólk, helst lífrænt vottuð
Ostahleypir fyrir Fromange Blanc, fæst hjá Cheesemaking fyrirtækinu.

Verkfæri
Hitamælir
Ostagrisja
Stór pottur
Stórt sigti
Fiskispaði
Teygja með krók á báðum endum
Skál til taka við vökvanum sem lekur úr pokanum

Verkfærin talin frá vinstri: skál með sigti, teygja með krókum á báðum endum staðsett ofan í skálinni, lífræn nýmjólk, fiskispaði, ostagrisja, stór pottur, litli miðinn neðst á myndinni er ostagerillinn og hitamælirinn liggur þar ofan á.

Ostagerðin
Hellið mjólkinni í pottinn. Látið heitt vatn renna í um það bil 3/4 af vaskinum. Setjið pottinn ofan í. Hrærið stöðugt í pottinum með sleif og um leið haldið þið hitamælinum ofan í mjólkinni, þar til mjólkin hefur náð 30°C.

Öll mjólkin komin í pottinn og heitt vatn í vaskinn.

Þá takið þið pottinn upp úr vaskinum og hellið gerlunum út í mjólkina. Þeir eru í litlum poka sem ostadrottningin selur, þessir gerlar heita Fromage Blanc (C20) hrærið rólega í pottinum í um það bil 2 mínútur. Næsta skref er að setja lokið á pottinn og koma honum fyrir einhvers staðar þar sem hitinn er um það bil 22°C.  Látið hann standa í 12 tíma.

Um morguninn ætti mjólkin að vera orðin að mjúkum osti og einnig er nokkuð af vökva í pottinum. Takið nú ostagrisjuna (Butter muslin) og skolið hana undir köldu vatni, vindið hana vel og breiðið hana yfir sigtið.

Daginn eftir var mjólkin orðin álíka þykk og súrmjólk og ég mokaði henni ofan í sigtið ofan á ostagrisjuna. 

Ausið nú ostinum yfir í grisjuna með fiskispaða. Bindið grisjuna utan um ostinn og setjið hnút á. Hengið ostinn upp í 8-12 tíma. Eftir því sem hann hangir lengur þeim mun þéttari verður hann í sér.

Það er hægt að hengja ostinn upp á tvennan máta annað hvort með því að setja krók upp í loftið fyrir ofan borð eða vask, síðan hengið þið teygju í krókinn, þetta eru svona teygjur sem eru með króka á báðum endum fást í öllum byggingavöruverslunum. Á teygjuna hengið þið síðan ostagrisjuna sem búið er að binda góðan hnút á. Ég er með krók í eldhúsinu sem er fyrir ofan borð.

Þetta fannst mér skemmtileg mynd þar sem sést greinilega í vökvann sem er að leka úr ostinum.

Ef þið komið því ekki við að setja krók í loftið þá er einnig hægt að vefja grisjunni utan um skaft á sleif og síðan setja sleifina yfir fötu eða skál, þannig að vökvinn geti lekið úr grisjunni og osturinn orðið þéttur og fínn.

Ein mynd til að sýna útgáfu ostagræjunnar minnar.

Eftir 12 tíma er osturinn orðin þykkur og fínn. Nú er hann tilbúinn og þið getið gert það sem þið viljið við hann.

Þarna eru tólf tímar frá því ég hengdi ostinn upp og greinilega mikill vökvi farinn úr ostinum.

T.d. sett salt í hann, svartan pipar, chillí, papriku, basil eða oreganó. Það er auðvelt að búa til kúlu úr ostinum og gott er að strá kryddum yfir ostinn sem þú villt nota eftir að  þú ert búin að móta kúluna eða þú setur ost í skál og hrærir kryddunum saman við hann og myndar síðan kúlu. Allt eftir smekk hvers og eins. Ég mótaði ostinn og stráði svo kryddunum yfir hann. Það er mælt með því að setja smá salt í ostinn því það lengir geymsluþol hans. Þessi ostur geymist í um það bil tvær vikur í ísskáp. Þið fáið um 800 g af osti úr þessari uppskrift.

Þarna er ég nýbúin að taka ostagrisjuna utan af ostinum, ilmurinn er þvílíkt ferskur ostailmur.

Svo salta smá, ég setti um 1 tsk af salti, hnoðaði ostinn saman og skipti upp í þá stærð af osti sem ég vildi fá.

Ég skipti ostinum mínum upp í þrjú stykki og til varð pipar ostur, kúmen ostur og hreinn ostur. Ég geymi ostana á glerdiskum sem ég vafði smjörpappír vandlega utan um og setti síðan inn í ísskáp. Ég er ekki hrifin af því að geyma matvæli í plasti því það eru efni í plasti sem eru ekkert góð fyrir líkamann okkar eða náttúruna.

Verði ykkur að góðu.

4 thoughts on “Fromage blanc

 1. Ég hef oft séð leiðbeiningar um osta- og skyrgerð þar sem manni er uppálagt að hita mjólkina upp að nánast suðu, og láta hana svo kólna niður í ca 30 gr. áður en maður setur gerilinn útí. Mér hefur oft þótt kólnunin taka langan tíma, raunar er allur móður runninn af manni áður en réttu hitastigi er náð. Hef viljað sleppa þessu.
  Hér hefur þú farið styttri leiðina: beint úr fernunni uppí 30 gr.
  Er einhver munur á útkomunni, heldurðu? Hleypur þetta allt upp í bakteríur og svínarí, ef maður snögghitar ekki mjólkina fyrst?
  (Og úrþví ég er farinn að skrifa komment: ætti ekki að vera hægt að fá hleypi-ensým og gerla innanlands?)
  Hlakka til að sjá hvernig þú ferð með harðari ost.
  mbk

  • Sæll þetta er frábær ostur og er enn ferskur í ísskápnum hjá mér. Verður notaður í ofnbakaðann fiskirétt í dag. Búrið sem er sælkeraverslun við Nóatún er sagt selja hleypi, hef ekki athugað það. En auðvitað ætti þetta að vera selt í öllum matvörubúðum þegar ostarvakningin verður vöknuð í hinum sofandi Íslendingum.

 2. Sæl,

  Takk fyrir skemmtilegt blogg.
  Hvernig hefur gengið í ostagerðinni?
  Við fjölskyldan bjuggum í Lúxembourg í nokkur ár og þar var Fromage blanc eða Fromage frais notað sem eftirréttur fyrir börnin og við ýmis önnur tilefni. Okkur hefur oft langað að komast í svoleiðis síðan en ekki fundið hér á landi og fannst því mjög gaman að sjá þetta blogg hjá þér og ætlum að prufa þetta. Mig minnti þó að hann hafi verið aðeins blautari en hann virðist vera hjá þér, svipað og skyr eða mjög þykkt jógúrt. Veistu hvort osturinn sé unninn eins ef það á að nota hann þannig? Getur kannski verið að hann sé ekki látinn hanga eins mikið?

  • Sæll. Ráð er að athuga með ostinn af og til þegar hann hangir, taka hann bara niður og kíkja í pokann. Þú getur alveg valið hve þurr eða blautur hann verði. Þetta er einfaldasta og skemmtilegasta matargerð sem ég veit um. Ostar eru spennandi matur. Njótið vel.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s