Bláberjabaka

Frystikistan okkar er full af bláberjum sem eru notuð óspart í bakstur, sultugerð og beint út í hafragrautinn. Góður vinur okkar kom með sjóbirting til að hafa í kvöldmatinn og ég bakaði bláberjaböku eins og þær gerast bestar úti í Ameríku. Það verður alltaf að vera eftirréttur eftir góða máltíð.

Þessi vinur kom einnig með okkur í berjamó vestur í Ísafjarðardjúp í haust. Þar var svo mikið af berjum að ekki var hægt að stíga niður fæti án þess að kremja einhver dásemdar ber. Við komum heim klyfjuð með 22 kg af bláberjum fyrir veturinn. Ein besta búbót sem til er myndi ég segja er að eiga holl, íslensk bláber í frystinum. Áður en við fórum vestur í haust hafði ég tínt um 8 kg í Mosfellsdalnum. Búkonan er ekki að gaufa við þetta með því að nota fingurna heldur er berjatínan tekin fram og brekkurnar eru rakaðar með henni.

Aðalbláber og fallegur ljónslappi en það eru grænu laufblöðin sem eru við fingur ljósmyndarans.

Það er hægt að finna ótrúlegt magn af uppskriftum af bláberjabökum á netinu og í uppskriftarbókum, hins vegar er erfitt að vita hvað er góð uppskrift og hvað ekki. Mín uppskrift er með þeim betri, varð bara að segja það, því hún er mjög góð.

Fyllingin lekur ekki niður á diskinn þegar þú skerð bökuna, hún heldur sér innan í skelinni. Það er eitt merki um að þetta sé góð baka. Bökuskelina er auðvelt að búa til. Uppskriftin er einföld og það er gaman að setja bökuna saman. Síðast og ekki síst þá er þetta ótrúlega bragðgóð bláberjabaka. Það er hægt að bjóða upp á hana heita eða kalda. Ís er sérstaklega gott að borða með bláberjaböku.

Mér verður alltaf hugsað til tveggja góðra vina sem ég átti í Kanada þegar ég baka bökur. Þeir elskuðu tvær gerðir af bökum, annar elskaði rabarbarabökur og hinn bláberjabökur. Ætli ég segi ekki að þessi bláberjabaka sé bökuð til heiðurs vináttunni.

Bökuskel-innihald
12 msk íslenskt smjör
240 g hveiti
8 msk ískallt vatn

Setjið smjör og hveiti saman í skál og tætið smjörið í sundur með tveimur göfflum eða setjið í hrærivél sem rífur smjörið saman við hveitið.

Búin að rífa smjörið niður með göfflunum, næst er að setja vatnið.

Næst er ískalda vatninu hellt yfir og deigið er hnoðað saman. Ekki setja meira vatn en 8 msk, þótt ykkur finnist þetta vera allt of þurrt þegar þið byrjið að hnoða deigið saman, þessi uppskrift er fullkomin eins og hún er. Hnoðið saman í góða kúlu og setjið í ísskápinn á meðan þið eruð að blanda fyllinguna.

Deigið tilbúið fyrir kælinn.

Fylling
670 g bláber
110 g sykur
50 g kartöflumjöl

Það má bæði nota frosin eða fersk bláber. Setjið bláberin í skál en blandið sykrinum og kartöflumjölinu saman í annarri skál. Hellið síðan sykublöndunni saman við bláberin og hrærið rólega saman með sleif, þar til berin hafa blandast vel saman við sykurblönduna.

Fallegu bláberin búin að fá sér sykursprett /sundsprett ofan í stórri skál.

Takið nú deigið úr ísskápnum og skerið það í tvo jafna hluta. Fletjið einn hlutann út í hringlaga deig og setjið ofan á bökudiskinn, minn diskur er um það bil 20 cm í þvermál. Góð aðferð til að setja deigið ofan á diskinn er að rúlla því upp á kökukeflið og rúlla því síðan ofan á bökudiskinn. Lagfærið deigið þannig að það passi vel í diskinn, þrýstið því niður og pikkið vel með gaffli.

Deigið vel útflatt og tilbúið til vinnslu, marmarakökukeflið mitt er dýrindis gripur fyrir svona verk.

Upprúllað bökudeig á leið ofan á bökudiskinn.

Tilbúin bökuskel, sem búið er að þrýsta ofan í diskinn og einnig er búið að pikka bæði botninn og hliðarnar.

Hrærið nú aðeins í bláberjafyllingunni og mokið ofan í bökudiskinn. Dreifið vel úr berjunum. Fletjið nú út lokið á bökuna.

Allt að gerast, seinni hluti ævintýrsins tekur við, sem er gerð loks ofan á bökuna.

Setjið  lokið varlega ofan á og festið saman með puttunum við bökudeigið sem þegar er komið ofan í diskinn, þið finnið ykkar aðferð við þetta. Skerið fjögur göt í lokið svo hiti og gufa komist út úr bökunni og skreytið að vild. Hægt er að búa til falleg blóm og laufblöð úr afgangsdeiginu. Restina af deiginu er hægt að frysta og nota í næstu böku. Ég fékk sérstakan aðstoðarmann sem bjó til laufblöð og bláber. Pennslið að lokum bökulokið með einu eggi.

Bakan tilbúin fyrir ofninn.

Bakið við 180°C í um það bil 1 klukkustund. Þegar bakan er orðin brún ofan á þá ætti hún að vera tilbúin. Búkonan þakkar húskarlinum fyrir listilega berja- og laufagerð úr deigi og einnig þakkar hún Bárði fyrir hinn góða sjóbirting.

Berið fram með ís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s