Engifer og apríkósu smákökur

Þessar engifer og apríkósu smákökur innihalda einnig spelt hveiti og súkkulaðibita. Þær eru svona smákökur sem myndu rjúka út ef þær væru seldar á heilsuveitingastað. Er ekki að ýkja það. Það er gaman að prófa að baka með öðrum innihaldsefnum en eru venjulega í kökum og þetta eru þannig smákökur

Hins vegar eru þetta ekki kökur sem þú hendir bara innihaldsefnunum saman og skellir í ofninn, þær eru smá dúttl og sumt efnið fæst bara í heilsubúðum. Hljómar ekki mjög spennandi eða auðvelt, en þær eru einmitt spennandi og auðveldar þessar kökur. Deigið er mjög meðfærilegt og auðvelt er að móta kökurnar.

Þegar þú hefur um margt að hugsa þá eru þetta fullkomnar kökur til að dunda sér við til að fá botn í málið.  Þetta eru sem sagt íhugunar smákökur.  Fyrir mér er bakstur og eldamennska sköpun en um leið aðferð sem auðveldar mér að einbeita mér. Þegar þú vilt gleyma þér þá er fátt betra en að demba sér í einhverja sköpun í eldhúsinu. Uppskriftin kemur úr bókinni Super natural every day, sem er eftir Heidi Swanson, þar er að finna mjög hollar uppskriftir sem ég er aðeins að æfa mig á þessa daganna.

Innihald
230 g spelt hveiti, ég notaði gróft
1 tsk matarsódi
1 1/2 msk engifer duft
1/2 tsk salt
115 g smjör
60 ml mólassi, heitir Unsulphured blackstrap molasses, fæst t.d. í Lifandi markaði
100 g sykur/ uppskrift gefur upp gullinn caster sykur, ég notaði venjulegan
2 msk fersk engifer, sem búið er að rífa mjög fínt niður
1 egg
179 g apríkósur, lífrænt vottaðar,skornar í litla bita
170 g, 70% súkkkulaði

Ég mæli með að þið byrjið á því að setja smjörpappír á tvær bökunarplötur. Síðan hræra þurrefnin saman í stórri skál: hveiti, matarsóda, engiferduft og salt. Næst er að saxa apríkósurnar niður. Ég skar þær fyrst í mjög þunnar sneiðar og síðan í litla bita. Notið lífrænt vottaðar apríkósur þær eru svo miklu betri á bragðið og ekki búið að dýfa þeim í einhver efni sem gera þær skær appelsínugular.

Fallegar og bragðgóðar lífrænar apríkósur komnar í smátt. 

Saxið svo súkkulaðið í smáa og þunna bita og að endingu skulið þið rífa engiferið niður á fínustu stillingu rifjárnsins. Þegar ég er með innihaldsefni sem þarf að rífa eða skera niður þá er ég alltaf með litla diska sem hægt er að setja þau á þegar þau eru tilbúin í uppskriftina. Þannig flýtir þú fyrir og ert með allt á hreinu í eldhúsinu.

Næst er að bræða smjörið, bræðið það á lágum hita, þegar það er tilbúið takið af hellunni.

Þá er að vigta mólasann, en mólassi er dökkt, bragðmikið og þykkt síróp sem verður til þegar sykur er unninn úr sykurreyr eða sykurrófum. Mólassi er ekki eins sætur og sykur.

Ég veit þetta lítur hræðilega út og ég fór að hlæja þegar ég sá þessa mynd, en þetta svarta efni er mólassi sem gerir kökurnar alveg frábærar.

Þar sem mólassi er mjög þykkur og klístraður þá hellti ég honum á flatan disk sem lá ofan á vigtinni og þannig var auðvelt að vigta hann og setja út í pottinn. Ég notaði sleikju við það verk. Hrærið nú mólassanum saman við smjörið, ásamt sykrinum og ferska engiferinu, blandið vel saman. Þessi blanda á að vera volg en alls ekki sjóðandi heit. Ef þið getið ekki snert blönduna bíðið aðeins þar til hún verður volg og þá er komin tími til að setja eggið út í. Pískið eggið vel saman við.

Egg ofan á mólassablöndunni. Flott samsetning, gult og svart.

Hellið mólassablöndunni nú saman við hveitiblönduna og setjið apríkósurnar einnig saman við. Hrærið varlega saman með sleif, að endingu setjið þið súkkulaðibitana saman við. Hrærið saman. Látið kólna í um það bil 30 mín.

Deigið tilbúið fyrir mótun á engifer og apríkósu smákökum.

Hitið nú ofninn upp í 180°. Mótið kringlóttar kökur úr deiginu, ég notaði matskeiðina á mæliskeiðunum mínum og hafði um það bil hálfa matskeið í hverri köku. Rúllið upp í kúlu og setjið á bökunarplötuna, passið að hafa um það bil tveggja kúlu bil á milli hverrar köku.

Deigið er mjög blautt þess vegna er sérstaklega auðvelt og fljótlegt að móta kökurnar.

Bakið í um það bil 7-10 mínútur eða þar til kökurnar hafa lyft sér vel, eru orðnar dökkar og farnar að springa ofan á toppnum.

Berið fram með ískaldri nýmjólk.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s