Súkkulaðiterta með bananakremi

sukkuladibananaterta1_s

Gleðilegt nýtt ár segi ég um miðjan janúar. Þessi tími er skrítið fyrirbæri og ég hef ákveðið að taka mér jógakennarann minn hana Ágústu til fyrirmyndar og segja: „Ég á nógan tíma“.

Margt er búið að eiga sér stað síðan um jól og einn af mörgum hlutum er sá að það eru komnar fimm hænur og einn hani í sveitina. Haninn heitir Pavarotti en púddurnar heita allar saman bara Púdda púdd.  Nú eigum við alltaf falleg og bragðgóð egg. Mæli með því að fá sér hænur. Ég fékk margar fínar jólagjafir og ein af þeim gjöfum sem ég fékk er fallegi kristal tertudiskurinn sem tertan stendur á, þessa gjöf gáfu foreldrar mínir mér og ég er hrikalega ánægð með hann. En snúum okkur að tertunni.

Það er eitthvað með banana og súkkulaði, það smell passar saman og sérstaklega í kökum.

Uppskriftin kemur úr blaðinu Gestgjafanum 11.tbl frá 2012. Þar heitir hún Bananaterta með súkkulaðihjúp, í uppskriftinni átti að nota mjúkt smjör í bananakremið og súkkulaðihjúpinn en ég bræddi smjörið, það virkaði mjög vel.

Kakan er einstaklega mjúk og bragðgóð.

Innihald fyrir botna
4 egg
2 1/2 dl sykur
1 1/4 dl hveiti
3 msk kakó, sigtað
1 msk kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft

Hitið ofninn í um það bil 180°C. Þeytið egg og sykur vel saman, eða þar til eggjablandan er orðin hvít og þykk. Sigtið saman hveiti, kakó, kartöflumjöl og lyftiduft, hellið saman við eggjablönduna og hrærið rólega í blöndunni með sleikju. Setjið í tvö hringlaga form um það bil 30 cm í þvermál sem búið er að smyrja vel með smjöri. Bakið ofarlega í ofninum í um það bil 15-20 mín. Alls ekki opna ofninn fyrstu tíu mínúturnar því þá getur kakan fallið. Kælið botnana vel áður en bananakremið og súkkulaðihjúpurinn er settur á kökuna.

Bananakrem, sett á milli botnanna
1 1/4 dl sigtaður flórsykur
80 g brætt smjör
3 stappaðir bananar, helst mjög ferskir

Stappið bananana vel með gaffli. Bræðið smjörið við lágan hita, setjið í skál ásamt flórsykrinum og þeytið vel saman, blandið svo stöppuðum bönunum saman við. Setjið á milli botnanna.

Súkkulaðihjúpur
100 g smjör
100 g flórsykur, sigtaður
150 g suðusúkkulaði
1 egg

Bræðið smjörið við lágan hita og þeytið síðan saman smjör og flórsykur. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, setjið saman við smjörblönduna ásamt egginu. Þeytið vel saman.

Bananakremið passar allt inn á milli botnanna. Súkkulaðikrem uppskriftin er stór, það er hins vegar smekksatriði hvað fólk vil hafa mikið af súkkulaðikremi á kökunni sinni, ég setti allt kremið á kökuna, ekkert hálfkák hér. Þegar kremið er sett á hliðarnar þá er gott að nota teskeið eða breiðan hníf til að dreifa úr því.  Þessi kaka geymist vel í kæli og er hið mesta sælgæti. Ég skreytti kökuna með súkkulaðihúðuðum banönum, þeir eru fallegir en ekkert sérstaklega bragðgóðir.

Verði ykkur að góðu.

sukkuladibananaterta3_s

2 thoughts on “Súkkulaðiterta með bananakremi

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s