Föstudagsins langa bollur

fostudaginslangabollur3_s

Þegar við flytjum að heiman og búum til okkar eigin heimili reynum við að útbúa matinn sem við ólumst upp við og einnig er nýjum uppskriftum bætt við í sarpinn. Föstudagins langa bollur eru t.d. hefð sem ég er að búa til á mínu heimili.

Hægt er að fá þessar bollur í bakaríum í Bretlandi og ég hef heyrt af þeim í búðum í New York, þær heita á frummálinu „Hot cross buns“.  Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Bollurnar eru skemmtilegar á að líta en hvítur kross er yfir þær miðjar og einnig eru þær mjög góðar með smjöri, osti og gúrku. Uppskriftin er fengin úr bókinni Feast, Food that celebrates life, sem er eftir Nigellu Lawson.

Innihald fyrir deigið
150 ml mjólk
50 g smjör
Fín rifið hýði utan af einni lífrænni appelsínu, ef þið eigið ekki appelsínu, þá má nota 3 tsk af appelsínusafa
1 negul naggli
2 heilar kardamommur
400 g brauð hveiti, er í bláum pokum frá Kornax
1 msk þurrger
125 g rúsínur
1 tsk kanill
1/2 tsk múskat
1/4 tsk engifer duft
1 egg

Krossa efnið
3 msk hveiti
1/2 msk sykur
2 msk vatn

Best er að útbúa deigið deginum áður og geyma það í glerskál inni í ísskáp. Byrjið á því að rífa hýðið utan af appelsínunni, gott að nota fínasta hnífinn á rifjárninu. Hitið saman í potti við vægan hita: mjólk, smjör, appelsínuhýðið, negul nagglann og kardamommurnar. Hrærið vel í pottinum, takið pottinn af hellunni þegar allt smjörið er bráðnað. Á meðan smjörblandan kólnar lítillega blandið þá hveitinu, gerinu, rúsínunum og kryddunum saman í skál.

Þegar smjörblandan er orðin ylvolg þá skuluð þið taka kardamommurnar og negul nagglann úr blöndunni og pískið egginu saman við mjólkurblönduna, hellið henni síðan út í hveitiblönduna. Hnoðið nú vel saman þar til þið eruð komin með mjúkt deig í hendurnar. Setjið í gerlskál með plastfilmu yfir og geymið í ísskáp yfir nótt. Einnig er hægt að leyfa deiginu að rísa í um það bil eina og hálfa klukkustund en þessi ísskápa aðferð virkar einhvern vegin þannig að deigið verður bragðbetra.

Næsta morgun takið þið deigið út úr ísskápnum og leyfið því að ná í sig smá hita. Hnoðið það og búið til um það bil 16 bollur. Ég tók bara litla handfylli af deigi fyrir hverja bollu. Setjið þær á bökunarplötu sem búið er að setja bökunarpappír á.

fostudaginslangabollur1_s

Svona líta bollurnar út rétt eftir að það er búið að hnoða þær, og rétt áður en þær fengu á sig krossinn. Síðan fengu þær að lyfta sér. 

Skerið því næst kross í hverja bollu með bakinu á venjulegum smjörhníf, þannig verður til fínn kross í hverri bollu. Setjið viskustykki yfir bollurnar og leyfið þeim að lyfta sér á volgum stað í um það bil 45 mínútur.

Pennslið nú bollurnar með upphrærðu eggi sem búið er að hella smá mjólk saman við. Því næst setjið þið krossaefnið ofan í hvern kross með teskeið. Setjið bara lítið ofan í hvern kross þannig að þið eigið nóg í allar bollurnar, síðan er hægt að bæta við þar sem þarf.

fostudaginslangabollur2_s

Þetta lítur allt frekar klúðurslega út og alls ekki lekkert, en trúið mér þetta verða fagrar og bragðgóðar bollur.

Bakið bollurnar í um 220°C heitum ofni í um það bil 15-20 mín. Bollurnar eru tilbúnar þegar það er komin fallega brúnn litur á þær.

Verði ykkur að góðu.

fostudaginslangabollur4_s

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s