Saltfiskgratín

saltfiskgratin3_s

Páskafríið er að nýtast vel til þess að vinna upp hin ýmsu verk hér í sveitinni og ég hef tíma til að elda og blogga um það strax á eftir. Vaknaði snemma til að útbúa þennan rétt sem síðan var skellt í ofninn strax eftir vinnu við að smíða hænsnakofann.

Það eru sem sagt komnar fimm hænur í sveitina og einn hani. Þau hafa dvalið í gróðurhúsinu í vetur en nú þurfa þau að flytja út í kofann sem við erum að smíða. Við þurfum að fara að sá fyrir öllu því sem á að rækta hér í sumar. Það er ekkert smáræði sem verður ræktað af salati, tómötum, kryddjurtum, gulrótum, kartöflum, rauðrófum og káli. Allt er þetta lífrænt, engin tilbúinn áburður er notaður einungis húsdýraáburður, ekkert skordýraeitur er notað við notum heldur ekki erfðabreytt fræ.

Ég verð að segja að það er fátt dásamlegra eða heimilislegra en að hafa galandi hana og nokkrar hænur kroppandi út um allt, þær borða einnig hina ýmsu afganga sem koma frá okkur og síðan er hægt að ná í þessi hágæða egg út í gróðurhús. Fullkomið í alla staði. Í dag komu fimm egg þannig að ef framleiðslan verður álíka í sumar verður hægt að bjóða upp á landnámshænuegg til sölu.

Okkur gekk vel að smíða í dag og þetta saltfiskgratín rann ljúflega niður eftir alla útiveruna. Léttur, bragðgóður og næringaríkur réttur sem minnir aðeins á plokkfisk. Saltfisksréttir og indverskir réttir er það sem ég er með á heilanum núna. Uppskriftin kemur úr bókinn Eldað og bakað í ofninum heima sem er eftir Ingu Elsu Bergþórsdóttur og Gísla Egil Hrafnsson.

Innihald
500 g saltfiskur: roðlaus, beinlaus og útvatnaður
2 lárviðarlauf
1 laukur grófsaxaður
100 ml ólífuolía
3 hvítlauksrif, kramin og smátt söxuð
Lófafylli af fínsaxaðri steinselju
Salt og svartur pipar

Kartöflumús
1 kg kartöflur
6 msk smjör
250 ml mjólk
Salt og pipar

Ef þið eruð með frosinn saltfisk sem er með roði og ekki er sagt á pakkanum að hann sé útvatnaður. Þá er gott að roðfletta hann þegar hann er lítilega farinn að þiðna, mjög auðvelt að roðfletta þannig, síðan skuluð þið leggja fiskinn ofan í vatn í vaskinum og láta hann vera þar í hálfan dag.

Síðan er að sjóða fiskinn yfir vægum hita með lárviðarlaufum og lauk í 10 mínútur. Takið af hellunni og leyfið fiskinum að standa í soðinu á meðan þið útbúið kartöflumúsina.

Kartöflumúsin er einföld, en sjóðið kartöflurnar í um það bil 20-30 mín. Afhýðið þær og setjið í skál ásamt smjöri, mjólk, salti og pipar, stappið saman með kartöflustappara. Stappan er tilbúin þegar komin er mjúk áferð á hana. Ykkur gæti þótt of mikil mjólk í henni, prófið ykkur áfram en mér þykir gott að hafa svona mikla mjólk þar sem stappan verður þunn og blandast vel fiskinum.

Hellið soðinu af fiskinum og takið laufin í burtu. Næst setjið þið fiskinn og laukinn saman við kartöflumúsina, ásamt hvítlauk, ólífuolíu og lófafylli af steinselju. Saltið og piprið eftir smekk.

saltfiskgratin1_s

Gratínið nærri tilbúið, með steinselju sem ég ræktaði í fyrrasumar og frysti í haust. 

Hrærið rólega saman og hellið í eldfast mót. Gaman er að gera mynstur í réttinn með gaffli. Hellið örlitlu af olíu yfir réttinn áður en þið bakið hann. Bakist í 20-25 mínútur við 200°C. Berið fram með salati.

saltfiskgratin4_s

Það er erfitt að hætta að borða þennan rétt, alveg svakalega gott.

Verði ykkur að góðu.

saltfiskgratin5_s

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s