Frönsk lauksúpa

fronsklauksupa3_s

Sá matarnörd sem ég er þá hef ég skrifað niður nöfn á réttum sem ég á eftir að prófa að búa til og í gær tókst mér að strika út einn rétt af listanum sem verður eldaður aftur og aftur en það er franska lauksúpan hennar Juliu Child.

Julia Child er einn af mínum uppáhalds kokkum. Bókin hennar Mastering the Art of French Cooking er að mínu mati meistarverk. Julia Child var amerísk og þegar hún og eiginmaður hennar fluttu til París á fjórða áratugnum þá uppgötvaði hún töfra matargerðarinnar eftir ógleymanlega máltíð í Frakklandi. Hún fór í Gordon Bleu kokkaskólann í París og síðan lá leið hennar einungis upp á við.

Hún varð fyrsti sjónvarpskokkur í bandarísku sjónvarpi og þátturinn hennar The French Chef  fór fyrst í loftið árið 1963. Eftir Julia Child liggja margar áhugaverðar kokkabækur og einnig sjónvarpsseríur, ég hvet ykkur til að skoða það efni t.d. á Amazon, Julia Child lést árið 2004.

Ég hafði smakkað franska lauksúpu einu sinni hér heima á veitingastað og á tveimur la la góðum veitingastöðum í París, þannig að ég hafði smá viðmið hvernig bragðið ætti að vera. Mín súpa varð dásamlegri en allar lauksúpur sem ég hef smakkað. Það kom mér þægilega á óvart hvað hún varð sæt á bragðið, þar sem það er einungis 1/4 úr tsk af sykri í henni, en laukur verður óvenjulega sætur þegar hann er eldaður svona lengi.

Lauksúpu er ekki erfitt að gera en þessa tekur um 2 1/2 tíma að búa hana til. Þar sem laukurinn er eldaður hægt í smjöri og olíu og síðan er súpan látin malla rólega í um það bil klukkustund. Ég grét fögrum tárum á meðan ég skar niður 1.2 kg af lauk. Fyrir þessa uppskrift þurfið þið þykkbotna pott sem má setja inn í ofn.

Innihald
1.2 kg laukur
3 msk smjör
1 msk matarolía
1 tsk salt
1/4 tsk sykur
3 msk hveiti
1.6 l af nautakjötssoði
125 ml Dry white vermouth

Salt og pipar
3 msk koníak

Sneiðið fyrst laukinn til helminga og síðan í þunnar sneiðar. Eldið laukinn hægt með smjörinu og olíunni í lokuðum pottinum i um það bil 15 mínútur.

fronsklauksupa1_s

Svona líta 1.2 kg af lauk út rétt áður en farið er að hita hann. Falleg sjón.

Takið lokið af og hrærið sykrinum og saltinu saman við. Eldið nú laukinn þar til hann er komin með gullbrúnan lit á sig eða í 30-40 mínútur og hrærið oft í pottinum annars getur laukurinn brunnið við.

fronsklauksupa2_s

Laukurinn minnkar ótrúlega mikið en hérna er hann tilbúin fyrir hveitið.

Hitið á meðan nautakjötssoðið þannig að það sé tilbúið. Þegar laukurinn er orðinn gullbrúnn, þá hrærið þið hveitinu saman við og hrærið í pottinum í 3 mínútur. Takið pottinn af hellunni og blandið nú heitu soðinu saman við. Ef þið eigið ekki nautakjötssoð er hægt að búa það til helst úr lífrænt vottuðum og gerlausum súputeningum, notið 2 teninga í 1.6 lítra af vatni. Setjið einnig vermouth vínið saman við súpna, saltið og piprið. Látið nú súpuna malla í 1 klst. Hrærið af og til í henni.

Meðan súpan mallar rólega er tilvalið að rista nokkrar brauðsneiðar í ofninum. Mátið við pottinn hvað það passa margar sneiðar í hann. Dreifið nú brauðsneiðunum á bökunarpappír í ofninum og bakið þær við 180°C.  Meðan brauðsneiðarnar og súpan eru að bakast skuluð þið rífa niður ost til að dreifa yfir brauðsneiðarnar. Best er að nota parmesan ost en ef hann er ekki til þá notið það næst besta. Þegar brauðsneiðarnar eru orðnar ljósbrúnar takið  þær þá út úr ofninum.

Pennslið þær á báðum hliðum með ólivíuolíu. Bakið aðeins lengur. Þegar þið takið þær út, nuddið þær þá með hvítlauksgeira sem hefur verið skorinn til helminga. Nú ætti súpan að vera tilbúin. Hellið koníakinu saman við og hrærið varlega saman við. Leggið brauðsneiðarnar ofan á súpuna þannig að þær hylja alveg toppinn á súpunni, dreifið niðurrifnum parmesan osti yfir.

Ofnbakið nú súpuna með lokið á pottinum þar til osturinn hefur bráðnað vel og hefur náð á sig smá lit. Takið lokið af ef þið viljið stökkari brauðsneiðar og brúnni ost.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s