Súrar gúrkur

surargurkur1_s

Í sumar hefur verið eldað mikið og einnig bakað en ekki bloggað, en ég hef dáðst af öðrum matarbloggum. Ræktunin er mjög spennandi í ár. Inni- og útiræktun á tómötum, fjólubláar gulrætur og kartöflur, fagurt salat, kryddjurtir og gúrkur. 

Ég er að drukkna í gúrkum, en ég setti niður sex fræ og þessi fræ eru orðin af stórum plöntum í gróðurhúsinu sem blómstra vel. Býflugurnar sem sjá um frjóvgunina hafa unnið sitt verk vel. Við troðum gúrkunum upp á vinina, við sendum gúrkur með salatinu okkar sem við keyrum í bæinn á veitingastaðina en það koma alltaf fleiri gúrkur.

Í dag bjó ég til yndislegar súrar gúrkur sem heita: „Bread and butter pickles“. Hins vegar er ekkert brauð í þeim og alls ekkert smjör en ég held að þar sem uppskriftin kemur úr bandarísku uppskriftarbókinni The Fannie Farmer Cookbook, þá séu þessar góðu gúrkur notaðar ofan á smurt brauð í Bandaríkjunum, en bara mín kenning.

Ég nota þær hins vegar með steikinni og einnig set ég þær út í túnfisksalatið. Þá eiga sér stað einhver matarvísindi og bragðið af túnfisksalatinu verður með því betra.

Fannie Farmer Cookbook er merkileg uppskriftarbók sem allir þurfa að eiga sem vilja komast í þessar gömlu klassísku bandarísku uppskriftir. Bókin kom fyrst út árið 1896 og hefur verið endurútgefin þrettán sinnum með alls kyns viðbótum. Það eru ekki ljósmyndir í bókinni heldur eru alls kyns fínar og ítarlegar teikningar.

Ég gerði tvöfalda uppskrift og fékk tíu og hálfa krukku, stærðin sem ég notaði er eins og þessar venjulegu sultukrukkur, en uppskriftin sem ég gef upp hér er einföld. Ekki hafa áhyggjur af því að þetta geti ekki geymst lengi þar sem edikið kemur í veg fyrir að gúrkurnar skemmist. Eftir að krukkan er opnuð skal hún geymd í ísskáp. Setjið endilega dagsetningu á krukkurnar. Ég gef upp bollamál því ég gleymdi að vigta gúrkurnar, en notið bolla sem eru um það bil 2 1/2 dl.

Innihald
6 bollar, þunnt skornar gúrkusneiðar, notið kaffibolla.
440 g, smátt saxaður laukur
1 paprika, smátt söxuð
240 g salt
440 g púðursykur
1/2 tsk túrmerik
1/2 tsk negull
1 msk sinnepsfræ
1 tsk sellerífræ
470 ml eplaedik

Skerið gúrkurnar mjög þunnt og setjið í steikarpott, ásamt niðurskornum lauk og papriku. Hellið saltinu yfir og hrærið vel saman. Setjið lok á pottinn og látið standa í þrjá tíma.

surargurkur3_s

Um leið og saltið kemst í snertingu við gúrkurnar þá byrjar vatnið að renna úr þeim.

Setjið nú púðursykurinn, kryddin og eplaedikið í pott og hrærið vel saman. Stillið á vægann hita og náið upp hægri suðu.

surargurkur5_s

Alls ekki stinga nefinu nálægt þessum vökva þar sem edikið brennir nefið, dökki liturinn kemur frá púðursykrinum.

Á meðan suðan kemur upp skuluð þið setja allar gúrkurnar í sigti í vaskinn og skola vel með köldu vatni. En það mun vera komið mikið vatn úr gúrkunum eftir að hafa legið í saltinu.

surargurkur4_s

Þarna lak meira af gúrkunum um leið og ég skolaði þær vel með köldu vatni.

Þegar suðan kemur upp á edikblöndunni látið hana þá sjóða varlega í fimm mínútur, næst er gúrkunum mokað varlega ofan í pottinn. Hrært vel saman og látið vera í pottinum þar til búið er að ná upp suðu að nýju.

surargurkur7_s

Þarna er allt tilbúið, ég notaði bæði litla ausu og skeiðar til að koma gúrkunum í krukkurnar. 

Setjið nú gúrkurnar í krukkur sem hafa verið þvegnar í sjóðandi heitu vatni. Passið að ediksvökvinn nái yfir gúrkurnar þegar krukkunni er lokað. Hafið um um 1/2 cm pláss á milli loks og gúrku.

surargurkur8_s

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s