Kjúklingabauna karrý/ Chana masala

chickepacurry6_s

Indverskur matur er alltaf númer eitt hjá mér og mínum. Þá eru það ekki sósur úr krukkum, heldur er úrvals hráefni eldað með indverskum kryddum. Sósur úr krukkum gefa ekki „rétta“ bragðið sem ég sækist eftir, en sósurnar sem þið gerið frá grunni eru svo miklu bragðmeiri og bragðbetri. Einnig vitið þið þá nákvæmlega hvað er í sósunni.

Þessi réttur er: einfaldur, góður, fljótlegur, meðal sterkur og hollur. Tómata klasinn þarna á miðri pönnunni er svona í laginu vegna þess að þetta eru ekki tómatar úr dós heldur tómatar sem við ræktuðum í sumar og sem ég síðan sauð í mauk og frysti í 440 gramma pakkningum. Alltaf hagsýn þessi búkona.

Ég keypti bók í vor sem heitir Rick Steins India, In search of the perfect curry. Verð að segja að þessi bók hefur ekki valdið mér vonbrigðum, t.d. hef ég eldað besta lambalæri nokkurn tíma úr þessari bók og mun birta þá uppskrift þegar ég geri hana næst. Einnig hef ég lært margt um indverska matargerð. Rick Stein gerði sjónvarpsþætti um ferð sína um Indland, þar sem hann ferðaðist í leit að hinum eina sanna karrý rétt. Sem er flókið mál þar sem öll héruð Indlands eiga sinn karrý rétt. Vel gerðir þættir sem hægt er að finna á Youtube undir Rick Stein in India.

Það sem þið þurfið að eiga í skápunum til að gera indverskan eru nokkur grunnkrydd. Ég set fram nokkur nöfn á kryddum sem gott er að eiga, þar sem ég tek fram að kryddið sé duft, þá er ég að tala um að það sé á duftformi.

Kryddin sem gott er að eiga eru:
Cumin (EKKI KÚMEN): duft og fræ.
Coriander: duft og fræ.
Garam masala: duft.
Turmeric: duft.
Engifer: fersk rót og duft.
Kanill: duft og kanil stangir.
Kardamommur: heil fræ sem eru græn.
Negull: duft og negul naglar.

Þetta er allur galdurinn svo eru það bara hin kryddin sem við öll eigum eins og t.d. svartur pipar, chillí pipar, salt og lárviðarlauf. Þegar farið er út í mikla indverska matargerð þá bætast við fleiri krydd en þessi krydd sem ég nefni eru þau sem oftast eru notuð. Ætti kannski að kalla þau: Hið indveska kryddbelti?

Þetta er frábær uppskrift til að skella í þegar ekki er mikill tími en þörf er á góðum og hollum mat sem fyrst. Gott er að passa að eiga alltaf nokkrar dósir af lífrænt vottuðum kjúklingabaunum inni í skáp og tómata í dós. Þessi réttur passar fyrir fjóra ásamt hrísgrjónum.

Innihald
250 g þurrar kjúklingabaunir eða tvær dósir 625 g
1 msk olivíu olía
1 stór laukur, fínt saxaður
5 hvítlauks geirar, smátt saxaðir
5 cm engifer, rifið niður fínt í rifjárni
1 grænt chillí smátt saxað með fræjum
2 tsk coriander
2 tsk cumin
1/2 tsk chillí duft
1/ 2 tsk tumeric
1 dós af tómötum, lífrænt vottuðum
2 tsk salt
1 tsk garam masala
1 msk sítrónu safi

Aðferð
Ef þið sjóðið ykkar baunir þá þurfa þær að liggja í bleyti yfir nótt og síðan þarf að sjóða þær í um eina og hálfa til tvær klukkustundir. Annars ef þið eruð með baunir úr dós þá er þetta miklu fljótlegra. Byrjið á því að mæla kryddin á disk sem þið ætlið að nota, það flýtir fyrir öllu ferlinu.

chickepacurry4_s

Cumin, turmeric það gula, chilli það rauða, coriander lengst til hægri

Ásamt því að græja laukana, chillíið og engifer rótina. Þegar þið takið skinnið af engiferinu notið þá teskeið til að skrapa það af, gæti ekki verið fljótlegra og einfaldara.

chickepacurry1_s

Það er best að rífa engiferið niður með rifjárni, þá verður það meðfæranlegra og gefur meira bragð

Hitið olíuna í djúpri pönnu. Setjið laukinn út í heita olíuna og steikið hann þar til hann er orðin ljós brúnn og mjúkur.

chickepacurry3_s

Laukurinn ásamt engiferinu

Þá fer hvítlaukurinn úti í, ásamt engiferinu og ferska chillíinu, steikið í eina mínútu. Næst setjið þið kryddin út í: coriander, cumin, chillí duftið og turmeric, blandið vel saman við laukinn og steikið í um 30 sekúndur.

chickepacurry5_s

Þetta finnst mér langskemmtilegast við indverska matargerð þegar kryddin eru steikt með lauknum, ilmurinn sem kemur er ótrúlegur

Setjið næst tómatana út í, kjúklingabaunirnar, salt ,300 ml af vatni og leyfið þessu að malla í rólega í 20 mínútur.

Indversk krydd eru einnig lækningajurtir. Turmeric æði gengur nú yfir heiminn en það er fallega gula kryddið sem vinnur á móti bólgum í líkamanum, sem taldar eru valda krabbameini, einnig er það gott gegn gigt. Að borða sem mest af indverskum mat gerðum frá grunni held ég að sé með því heilsusamlegra sem hægt er að gera.

Á meðan rétturinn mallar rólega er hægt að sjóða hrísgrjónin og búa til raitu sem er köld indversk sósa sem er bragðbætt með mismunandi kryddum og grænmeti.

Raita með gúrku og cumin fræjum
5 dl AB mjólk
1 tsk cumin fræ
Hálf gúrka, afhýdd og skorin í litla bita
Allt sett saman í skál hrært varlega saman.

Eftir 20 mínútur er garam masala kryddið sett út í  kjúklingabauna réttinn ásamt sítrónu safa, hrært rólega saman og rétturinn er tilbúin. Hrísgrjónin ættu nú einnig að vera tilbúin.

chickepacurry2_s

Set hér mynd af sítrónunni sem skaffaði safann í réttinn, mér þykja sítrónur vera fallegir ávextir

Ég kreysti minn sítrónusafa sjálf úr lífrænum sítrónum, hann er með yfirburðum sá bragðbesti.

Verði ykkur að góðu.

chickepacurry7_s

 Hrísgrjón, kjúklingabaunakarrý og papadom sem eru þunn brauð sem auðvelt er að steikja, og hægt að kaupa í flestum búðum sem eru með indverskan rekka

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s