Kimchi er þjóðarréttur Kóreu. Kimchi er mjólkursýrt kínakál með alls konar kryddum, en megin kryddið er ávallt chillí og fiskisósa. Aðferðin við að búa til Kimchi er kölluð að mjólkursýra grænmeti, en samt kemur engin mjólk hér við sögu eða sýra.Þessi réttur hefur verið búin til í Kóreu í margar aldir og svokallað Kimchi æði hefur gripið um sig í hinum Vestræna heimi.
Flestir sem smakka Kimchi falla algjörlega fyrir því, það er með einstaklega seiðandi og sterkt chillí bragð sem blandast alls konar kryddum ásamt mjólkursýrunar, himneskt bragð! Sterkt en samt svo gott og stútfullt af góðum bakteríum. Súrkálið sem Þjóðverjar búa til er af sama meiði en smakkast alls ekki eins, sama grunnaðferð ræður samt ríkjum, en það er að salta kálið þar til það fer að svitna og þá losna út bakteríur sem eru góðar fyrir okkur öll.
Ég rakst á þessa uppskrift í Fréttatímanum þann 2. desember 2016, undir heitinu:“Kimchi-uppskrift móður Arim“. Þar deilir Arim, kóreisk stúlka þessari góðu og einföldu uppskrift. Ég mæli eindregið með því að búa til Kimchi, það er gott sem meðlæti með flestu því sem þið borðið. Í september eru mikið framboð af íslensku kínakáli í búðunum,sem er einstaklega gott að nota í Kimchi.
Chillí flögurnar fékk ég í Víetnam market og einnig fiskisósuna.
Innihald
4.5 kg kínakál um það bil fimm hausar
1 bolli salt
10 ml hveiti
30 ml vatn
1 laukur
1 tsk ferskur engifer
7 hvítlauksrif
1 bolli frosið mangó
1/2 bolli fiskisósa
1/2 bolli cochugaru (chillí flögur)
Skerið kálið í bita, ég skar í burtu þykka partinn í botninum. Dreifið í skálar.
Hellið síðan bolla af salti yfir allt kálið. Þar sem 4.5 kg af kínakáli koma saman þá er það heilmikið magn. Mér tókst að koma því fyrir í fimm ílátum sem ég dreifði saltinu jafnt yfir. Svo er saltinu hnoðað vel inn í kálið og þá meina ég mjög vel, þar til kálið fer að svitna, passið að saltið dreifist vel um kálið. Látið standa í þrjá tíma og hrærið af og til í því.
Á meðan kálið stendur þá er chillí blandan búin til. Fyrst er svokölluð hveitisósa búin til úr 30 ml af vatni og 10 ml af hveiti, þetta er sett saman í pott og hitað rólega þar til blandan verður eins og lím.
Látið hveitiblönduna kólna. Setjið næst lauk, hvítlauk, engifer, kælt hveitimaukið og mangó í blandara og maukið vel. Hellið í skál og setjið fiskisósuna og chillí saman við og hrærið vel saman, gott er að nota sleif.
Þarna er fiskisósan og chillí komin út í mangó, engifer, hvítlauks, lauks og hveitiblönduna og ilmurinn er ólýsanlegur, umami.
Eftir þrjá tíma hefur magn kínakálsins minnkað umtalsvert og mikill vökvi hefur losnað úr kálinu. Næsta skref er að skola saltið úr kálinu og setja chillí blönduna út í allt kálið.
Ég setti kálið í sigti og lét kalt vatn renna vel yfir það. Þegar ég var búin að skola allt kálið komst það fyrir í einum stórum steikarpotti. Hellið nú chillí blöndunni yfir og blandið vel saman við kálið með sleif eða sleikju.
Þarna er blandan samankomin og ekkert eftir að gera nema setja allt heila klabbið í krukkur. Ég notaði þrjár stórar krukkur með smelluloki sem t.d. er hægt að fá í Ikea. Alls ekki fylla krukkurnar alveg því meira vatn mun koma frá kálinu. Látið standa t.d. á eldhúsborðinu í um það bil 2-3 daga, opnið af og til yfir daginn til að hleypa út lofti sem myndast. Sósan ætti að fara að bubbla aðeins eftir þessa daga og hægt er að fara að smakka Kimchíið.
Endilega lesið ykkur til um sögu og geymsluaðferðir Kimchis, það eru til þúsundir uppskrifta af þessum góða rétti. Stórmerkilegt í alla staði.
Verði ykkur að góðu.