Um búkonuna

Ég er áhugamanneskja um mat, garðyrkju og umhverfisvernd. Ég heiti Björk Bjarnadóttir og ég er með B.A próf í þjóðfræði og M.A. próf í umhverfisfræði.

Ég er frá Blönduósi og ólst upp við óunninn mat beint af skepnunni ef svo má segja.  Pabbi veiddi bleikju í sjónum, annar fiskur var oftast keyptur beint af fiskimanninum, við fengum lambakjöt og svo var það folaldakjötið sem var allt unnið heima. Við úrbeinuðum það, skárum í bita og hökkuðum það. Ég elska folaldakjöt.  Síðan var allt bakað heima og mamma bjó alltaf til rabbabarasultu og alla kæfu til heima og þetta gera foreldrar mínir enn ásamt því að rækta kartöflur og tína ber. En þetta fannst mér ekkert merkilegt fyrr en ég fór að gera mér grein fyrir því að það fæði sem ég og mín systkin erum alin upp á er það sem í dag er kallaður hreinn, staðbundinn og óunninn matur.

Ég hef alls ekki alltaf haft áhuga á mat. Þegar ég byrjaði að búa fyrir langa löngu þá var matargerð kvöð í mínu lífi. Ég sá akkúrat ekkert skemmtilegt við það að elda, ég var enn með lokuð augun fyrir töfrum eldamennskunnar.

Svo rann mikið vatn til sjávar og allt í einu var ég flutt til Kanada á verndarsvæði frumbyggja og þar bjó ég í fimm ár og þá gerðist það. Ég varð að læra að elda mat fyrir stóra hópa af fólki og óöryggið fór með mig. Ég gat þetta ekki því ég kunni alls ekki að elda mat, ég kunni bara að baka brauð. Indjáninn sýndi mér þolinmæði og kenndi mér að gera kjúklingasúpu frá grunni eins og mamma hans hafði eldað fyrir hann.  Súpur höfðu aldrei verið í uppáhaldi hjá mér, ég hélt þær brögðuðust allar eins og súpur úr pakka: þunnar, bragðlausar og hundleiðinlegar en þetta var eitthvað annað þessi súpa var matur: falleg, bragðgóð og seðjandi.

Nú var ég komin á bragðið og til að lifa af og verða ekki að stress haug í eldhúsinu þegar ég átti að elda fyrir tíu eða fimmtán manns, þá fór ég að æfa mig og gera tilraunir í eldhúsinu. Svo fór indjáninn að gefa mér matreiðslubækur og matreiðslublöð með áhugaverðum og einföldum mat. Nú var ekki aftur snúið. Þegar veturinn kom og minna var að gera og ég einangraðist úti í óbyggðum þá sótti ég hugarró í uppskriftarbækurnar mínar. Ég fór að búa til ótrúlegustu rétti í eldhúsinu á meðan það var 35 stiga frost úti, eldurinn skíðlogaði í kamínunni og hundarnir mínir tveir lágu í forstofunni með lappirnar upp í loft.

Ég fór að finna bragðið af matnum þegar ég var að lesa uppskriftirnar og það þótti mér merkilegt. Ég las uppskrift og ég gat gert mér grein fyrir því hvort þetta væri góð eða vond uppskrift. Mér fór fram í eldamennskunni þennan vetur.

Síðan kom vorið og sumarið í heita Manitoba og ég fór að rækta grænmeti úti í grænmetisgarðinum með vinkonu minni Jennifer Bamford. Við ræktuðum: tómata, lauka, basiliku, gulrætur, kartöflur, maís, rauðrófur og jalepeno pipar. Allt óx þetta úti í garðinum og ég hafði aldrei á ævi minni upplifað annað eins. Þetta var himnaríki.  En svo kom að því að nýta alla þessa uppskeru og það kunni ég alls ekki. Ég lærði að sjóða niður rauðrófur þær bestu í heimi! Búa til tómatsósu og salsa sósur sem ég átti allan veturinn.  Einnig bjuggum við til pestó sem ég fyrsti í pokum og átti út veturinn.  Síðan átti ég: gulrætur, kartöflur og lauka langt fram á næsta vor, gjörsamlega frábært. Gæðin voru svo ótrúleg í þessum mat að ég fór að skilja að það skiptir öllu máli hvaðan maturinn þinn kemur, hvernig hann er meðhöndlaður og hvaða áburður fer á hann. Ég aðhyllist lífræna ræktun: engin tilbúin áburður, ekkert skordýra eitur, ekki erfðabreyttur matur.  Í dag er matargerð ekki kvöð  hún er ævintýri fyrir mér.  Það að geta sett saman nokkur hráefni og búið til úr þeim ótrúlega rétti sem gleðja marga er gleðilegur galdur.

Nú bý ég rétt fyrir utan Reykjavík með húskarli góðum og galdra ketti. Ég er með súpudellu og ef ég rekst á súpu uppskrift sem er spennandi þá get ég ekki staðist að prófa.  En nú er ég hætt að geta haldið utan um allt það sem ég er að gera í eldhúsinu. Þess vegna ákvað ég að setja upp þetta matarblogg og um leið deila með öðrum þeim ævintýrum sem ég lendi í þegar ég elda eða baka. Það er gaman að æfa sig í matargerð og um leið í myndatökum á mat. Ég bý líka til krem, jurtasmyrsl, sápur, baðsölt og einnig tíni ég jurtir, rækta grænmeti og kryddjurtir. Flest af þessu mun ég setja upplýsingar um og einnig myndir.

Að lokum, þegar allt er farið í köku hjá mér og ég er að baka þá hugsa ég oft um orðin hennar Nigelu Lawson að það sé alltaf hægt að bjarga kökum sama hve ljótar eða gallaðar þær séu. Þegar ég ber matinn fram og hann er ekki alveg eins og hann átti að vera þá hugsa ég oft um orð Julia Child sem eru: „This is how it is suppose to be“.

Njótið vel og góða skemmtun í eldhúsinu.

6 thoughts on “Um búkonuna

  1. Gaman að lesa bloggið þitt, èg er einmitt í svipuðum pælingum. Maturinn bragðast einfaldlega svo miklu betur ef maður gerir hann frà grunni.

  2. Hæ takk fyrir skemmtilegt og fróðlegt blogg. Ég sendi þér skilaboð á fb varðandi hugmynd að smá verkefni. Mig langaði til að athuga hvort þú hefðir fengið skilaboðin?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s