Svartbauna borgarar

IMG_7137

Svartbauna borgarar eru mjög góðir og hollir grænmetis borgarar, það er hægt að hafa þá fyrir grænkera (vegan) með því að sleppa egginu og setja chia hlaup í staðin. Sett verður með þessari uppskrift hvernig það er gert. Almennt séð þá eru gæða hamborgarar eitt af því besta sem ég fæ, ég er hrifnari af grænmetisborgurum vegna þess að þeir bragðast einfaldlega betur en kjöt og fara betur í maga. Hráefnið verður að vera gott, brauðin helst súrdeigsbrauð og meðlætið hið ferskasta ásamt sósunum.

Svartbaunir eru uppáhalds baunirnar mínar því þær eru svo bragðgóðar. Þið getið alveg notað baunir úr dós en ég mæli með því að nota þurrar baunir sem þið leggið í bleyti í sólarhring og sjóðið svo.

IMG_7119

Ástæðan: baunir úr dós eru búnar að liggja þar í óákveðin tíma í vökva og umluktar málmi, sem er ekkert mjög hollur fyrir okkur og svo eru meiri bragðgæði í nýsoðnum baunum. Þetta er ekki tímafrekt, þetta krefst skipulagningar sem er lítið mál. Mæli með að þið tvöfaldið uppskriftina og þá eigið þið nóg í frysti.

Það koma um níu stykki af borgurum úr þessari uppskrift, einn borgari er nóg á mann, þeir eru svo seðjandi. Frystið afganginn, með því að setja borgarana hlið við hlið á flatann bakka. Setjið plast yfir og inn í frysti. Þegar þeir eru frosnir takið af bakkanum og setjið í poka eða box. Þegar á að elda borgarann t.d. um kvöldið, takið úr frysti um morguninn og leggið á disk og geymið inni í ísskáp.

Svartbauna borgarar

Innihald.
2 dósir svartbaunir eða 2 bollar af þurrum baunum lagðar í bleyti yfir nótt. 1 bolli af baunum er um 200g
1 niðurrifinn laukur, rifinn í rifjárni
1/2 tsk chillí duft
1/2 tsk salt
1/2 tsk hvítur pipar, því hann er svo bragðgóður
1 egg
1 bolli brauðmylsna eða fínir glúteinlausir hafrar
Ef fyrir vegan, vegan egg fyrir grænkera, 1 msk chiafræ sett út í 3 msk vatn, hrært saman og sett síðan út í baunablönduna þegar orðið hlaupkennt, tekur um 15 mínútur að verða hlaupkennt.

Aðferð
Sjóðið baunirnar þar til þær eru orðnar mjúkar í gegn, um það bil 1 1/2 klst. Maukið þær t.d. með töfrasprota þar til nokkrar baunir sjást í maukinu. Ástæðan er sú að borgarinn verður líkari kjöthakki með þessu og heldur sér betur saman.

IMG_7128

Rífið laukinn niður í rifjárni og hrærið hann saman við baunablönduna ásamt kryddunum, brauðmylsnunni, eggi eða vegan eggi. Smakkið baunablönduna til, sumir vilja meira chillí, en ávallt að fara varlega með það, svo erfitt að leiðrétta ef þið setjið of mikið af því. Þarna eru fjórir haugar af salti og einn haugur af chillí….dásamlega gott.

IMG_7131

Ef baunablandan er það klístruð að hún loðir við lófana, setjið þá meira af höfrum út í. Mótið borgara. Steikið á pönnu við meðal hita, um það bil 5 mínútur á hverri hlið. Þessir borgara skreppa ekki saman við steikingu.

IMG_7132

IMG_7136

Þótt borgarnir líti út fyrir að vera eins og ofsteiktir skósólar, þá bragðast þeir dásamlega.

Meðlæti
Salatblöð, niðurskornir tómatar, niðurskorin gúrka, laukur í sneiðum, avókadó í sneiðum, tómatsósa,dijon sinnep, chillí sósa og majones.

IMG_7142

 

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd