Fíflasíróp

Eitt það allra besta út á pönnukökurnar, vöfflurnar eða ísinn er fíflasíróp. Heill her af fólki hatast við þessa plöntu og eyðir peningum, tíma og fáranlegum eiturefnum á eina af okkar sterkustu lækningajurtum sem einnig er stórkostleg planta þegar kemur að matargerð.Hægt er að nýta alla hluta plöntunar: laufin, rótina og blómin. Við nýtum laufin í salat áður en fífilinn blómstrar, bragðið líkist ruccola en er miklu betra myndi ég segja. Frank Ponzi sagðist alltaf verða glaður þegar hann borðaði fíflalaufasalat en móðir hans sem var ítölsk bjó ávallt til þetta salat þegar færi gafst.

Blómin nýtum við í fíflasíróp. Ég tíni hausanna í garðinum okkar því ég veit að þar hafa engin eiturefni verið notuð. Þannig að ef þið eruð að fara að tína alls ekki tína nálægt vegi eða þar sem vitað er um áburðar eða eiturefna notkun.

Fífillinn heitir á fræðimálinu Taraxacum officinale. Endilega lesið ykkur til um þessa jurt og spáið í það að þær jurtir sem hvað erfiðast er að losa sig við eru flestar hverjar einstaklega kraftmiklar lækningajurtir.

Ég bjó til þetta fíflasíróp á tveim dögum en látið ekki lengd matreiðslunar vaxa ykkur í augum. Það sem gerist hægt er ávallt það besta. Ég gerði fimm falda uppskrift og hérna er mynd af 500 fíflahausum, það sást varla högg á vatni úti í garði.

fiflasirop1

Fíflasíróp
100 fíflahausar
5 dl vatn
1 lífræn sítróna
500 g sykur

Tínið 100 fíflahausa í körfu eða koddaver. Plöntur má aldrei tína og setja ofan í plast þá verður til raki sem þarf ekki að fylgja með. Setjið fíflana ofan pottinn ásamt vatninu og niðurskorinni sítrónunni.

fiflasirop2

Náið upp suðunni og slökkvið svo undir.

fiflasirop3

Látið bíða í pottinum í sólarhring. Þá skuluð þið sía sítrónuna og fíflahausanna frá vökvanum. Vökvinn fer aftur í pottinn ásamt sykrinum. Láttið malla rólega í
1 1/2 klukkustund.

fiflasirop4

Meðan sírópið er að verða tilbúið skuluð þið gera krukkurnar ykkar tilbúnar. Ég þvæ þær með sjóðandi heitu vatni.

Þegar tíminn er liðinn hellið sírópinu á krukkurnar og lokið strax.

fiflasirop7

fiflasirop6

Verði ykkur að góðu.

3 thoughts on “Fíflasíróp

  1. Hefurðu prófað að setja smávegis af sírópinu útí kalt sódavatn (eins og gert er við Holunder-síróp í Austurríki) ? „Holunderblütensirup“ er búið til eins og þú lýsir fíflasírópinu, þó blómin komi reyndar af trjám, ekki af svo smárri plöntu eins og fíflinum. Það er ma. notað í kalda drykki á sumrin. Á trén koma ber, sem eru tínd, og saftin látin gerja; lögurinn svo eimaður, og þá er kominn Holunderbrand.

  2. Fíflar eru fallegustu blóm blómaflórunnar , glaðasta, þakklátasta, sterkasta og besta plantan. Þeir koma mér alltaf í gott skap af því þeir kunna að brosa innilega og fara svo að sofa eins og þæg börn á kvöldin svo þeir geti verið hressir og kátir að morgni.

Færðu inn athugasemd