Skipulagið á sáningunni minni er ekki í topp klassa en ég reyni. Sniðugt er að gera miða úr skyrdósum til að stinga ofan í sáningar bakkana. Garðyrkjupokinn minn er saumaður úr plastpokum, ein besta gjöf sem ég hef fengið, frá Röggu vinkonu.
Boxin á myndinni eru undan ís og salati, ekki vera að fjárfesta í dýrum umbúðum undir það sem þið ræktið. Leytist við að endurnýta box og annað. Eftir sólríkan dag í gær var ágætt að fara inn í gróðurhús að vinna með sumarblómin og kryddjurtirnar sem ég er að rækta fyrir sumarið.
Vindur og regn buldu á gróðurhúsinu og sumarið dvaldi í huganum. Set hér inn nokkrar myndir af ræktuninni sem er komin af stað og hvet ykkur lesendur góðir að rækta ef þið hafið tækifæri til þess því betri afurðir til eldamennsku er ekki hægt að fá.
Smá af ræktuninni, aðallega sumarblóm og kryddjurtir.
Ég rækta alltaf: basil, steinselju, kóríander, oreganó og salvíu. Tvær síðast nefndu jurtirnar eru fjölærar sem þýðir að þær koma upp ár eftir ár, ef vetrarteppi er sett yfir þær fyrir fyrir veturinn. Vetrarteppið getur verið hey, laufblöð og strigapoki.
Basil Genovese, set alltaf nokkur fræ í pott þá þarf ekki að prikkla bara láta vaxa í pottinum þar til tilbúið til átu eða þurrkunar.
Steinselja vinstra megin en kóríander hægra megin.
Hér fyrir neðan eru tvær gerðir af oregano, sú til vinstri heitir Oregano Vulgare og sú til hægri heitir Oregano Wild Zaatar og hún kemur frá Ísrael þar sem hún vex villt og er víst með alveg ótrúlegu bragði. Er að rækta hana í fyrsta skipti, fræin fékk ég frá Baker Greek Heirloom Seeds, mæli með þeim.
Ég er líka með alls kyns sumarblóm í ræktun en hafði alls ekki áhuga á þeim fyrr en við fengum okkur býflugur og ég áttaði mig á því að sum sumarblóm er í alvöru hægt að borða. Hér má t.d. nefna: skjaldfléttu sem er einstaklega bragðmikil og fögur í salöt, morgunfrú, hjólkrónu og kamillu sem er hérna smávaxin í tveimur boxum. Hana rækta ég fyrir te, dásamleg á bragðið með hunangi.
Þessi veiklulegu strá hérna í boxinu fyrir neðan láta ekki mikið yfir sér en þið sem elskið allt sem fágætt er megið verða spennt. Þetta er já haldið ykkur nú….þetta er íslenskur villilaukur sem er alfriðaður og vex einungis úti í Breiðafjarðareyjum. Mér áskotnuðust fræ af honum í fyrrasumar og er að rækta hann í fyrsta skipti.
Hér fyrir neðan eru dásamleg kuldaþolin afbrigði af tómötum að vaxa undir verndarvæng húskarlsins, hans djásn og dásemdir. Það er hægt að rækta kuldaþolna tómata á Íslandi í óupphituðum gróðurhúsum.
Gullin okkar eru að vaxa hér fyrir neðan, þetta eru ættardjásnin sem geta gefið upp undir 900 g tómata, sem bragðast svo vel að maður vill ekki sjá tómatana sem verið er að selja úti í búð. Það er helst að fá svona tómata á matarmörkuðum úti í Evrópu og Norður-Ameríku.
Æfið ykkur í að taka fræ af plöntunum ykkar að hausti. Þegar þið byrjið að rækta þá opnast upp hinir dularfullu ræktunarheimar og erfitt er að hafa hemil á sér að prófa alls konar plöntur. Fræ eru hápólitísk vara og því ber að vanda valið.
Gangi ykkur vel.