Rabarbarakaka á 4 mínútum

Það er eitthvað með rabarbara, hann er ómótstæðilegur þar sem hann vex upp úr jörðinni grænn eða rauður. Ég kann best við að nýta rabarbara í múffur, kökur og sultur. Von er á gestum og ég ákvað að nota nokkra leggi af rauða rabarbaranum mínum í eina af mínum uppáhalds kökum, rabarbaraköku.

Það var einn dag fyrir einhverju síðan að ég rak augun í uppskrift af Rabarbaraköku á 4 mínútum, þessi uppskrift hékk á ísskáp vinkonu minnar. Ég renndi yfir uppskriftina og sá strax að hér var um snilldar köku að ræða vegna þess að hún var svo einföld og bragðlaukarnir fóru af stað. Hins vegar hafði vinkona mín aldrei bakað dýrðina og gat ekkert frætt mig um bragðgæðin sem ég átti eftir að upplifa oft.  Uppskriftin kemur frá Alberti Eiríkssyni matgæðingi en hann deildi uppskriftinni í Fréttablaðinu.

Ég hef gert tvenn mistök við gerð þessarar köku og ætla að deila þessum mistökum hér svo þið lendið nú ekki í því sama. Ef þið frystið rabarbara í öllum bænum ekki setja frosin rabarbara beint í kökur, það er svo mikið vatn í honum að deigið skemmist. Best er að taka rabarbarann út nóttina áður en á að baka kökuna og láta hann afþýðast í sigti.

Annað er með rabarbara að það er mikil sýra í honum, þannig að ekki búa til deigið og hella yfir rabarbarann og láta síðan bíða í einhvern tíma áður en bakað er, kakan verður að fara strax inn í ofninn. Ég gerði þetta í vor þegar mér var boðið í matarboð, ég ætlaði að slá í gegn með þessari köku sem eftirrétt. Ég mætti á svæðið, bjó til deigið og hellti yfir rabarbarann, síðan fékk kakan að bíða óbökuð í um það bil tvo tíma. Þegar hún fór í ofninn þá var deigið orðið eitthvað undarlegt. Til að gera langa sögu stutta þá reis kakan ekki og hún bragðaðist hræðilega! Einhver efnabreyting hafði orðið í deiginu sem olli því að hún reis ekki og sýran tók yfir allt heila klabbið. Búkonan var nú ekki stolt af sér þetta kvöld en ákvað að þetta væri nú góð lexía.

En hér er uppskriftin.

Innihald
Rabarbari, magn fer eftir formi, botnfylli
200 g brætt smjör
1 bolli hveiti
1 bolli sykur
2 egg
1 msk kókosmjöl
1 tsk lyftiduft
1 tsk vanillusykur

Rabarbarinn er skorinn niður þannig að hann fylli botn á eldföstu móti, ef þið eruð að nota frosinn rabarbara, afþýðið hann deginum áður í sigti.

Fagurrauður vínrabarbari.

Við gerð þessarar köku tvöfaldaði ég uppskriftina og bollamálin voru venjulegur kaffibolli. Bræðið smjörið við lágann hita í meðal stórum potti, meðan smjörið er að bráðna skuluð þið blanda þurrefnunum vel saman í skál. Þegar smjörið er brætt takið þá pottinn af hellunni og hellið þurrefnunum út í, hrærið vel saman.

Þurrefnin búin að blandast smjörinu.

Að lokum er eggjunum blandað út í og þau hrærð vel saman við deigið. Þegar búið er að hræra þessu öllu saman er deigið sett yfir rabarbarann í mótinu, dreift vel úr því.

Allt tilbúið fyrir baksturinn.

Bakið við 180°C í 20-30 mínútur, eða þar til fallegur gullinn litur er komin á kökuna. Berið fram með rjóma.

Verði ykkur að góðu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s